„Pólitísk ábyrgð, hvílíkt bull!“

Helgi Hrafn Gunnarsson sagði Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra enga iðrun …
Helgi Hrafn Gunnarsson sagði Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra enga iðrun hafa sýnt. mbl.is/Hari

 „Hvers vegna lét hún okkur ekki vita af þessu?“ spurði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag þegar rætt var enn og aftur um þá ákvörðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra að fara gegn ráðleggingum sérfræðinga um val á dómurum í Landsrétt. Hver stjórnarandstöðuþingmaðurinn á fætur öðrum steig í pontu undir liðnum fundarstörf forseta til að ræða samband og samskipti Alþingis við ráðherrann og hvernig staðið var að kynningu málsins fyrir þinginu áður en gengið var til atkvæða um tillögu ráðherrans. Sögðust þingmenn hafa gengið til atkvæðagreiðslu um tillögu ráðherrans í góðri trú en ekki haft til þess tilskilin gögn. Sögðust þeir eiga erfitt með að treysta orðum ráðherra héðan í frá þar sem hann hefði brugðist trausti þeirra.

 „Ráðherra hefur kosið í allri málsvörn sinni að varpa allri ábyrgð á herðar þingsins í stað þess að axla þá ábyrgð sjálf eins og henni ber,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, og að málatilbúnaður ráðherrans um ábyrgð sína og Alþingis væri með nokkrum ólíkindum og hlyti að vekja upp spurningar um upplýsingaskyldu ráðherra til þingsins. Sagði hann „forkastanleg vinnubrögð“ að upplýsa þingið á engu stigi máls um að verulegar efasemdir væru um vinnubrögð hennar og aðferðafræði innan stjórnarráðsins. „Á þingheimur að sætta sig við þetta?“

Gunnar Bragi Sveinsson benti á að ráðherrann hefði orðið tvísaga …
Gunnar Bragi Sveinsson benti á að ráðherrann hefði orðið tvísaga í málinu. mbl.is/Hari

Þórhildur Sunna sagði gögn málsins sýndu að enginn embættismaður hefði verið sammála tillögu ráðherra. „Kviknuðu engar viðvörunarbjöllur hjá dómsmálaráðherra?“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði að ekki eingöngu hefði ráðherrann ekki tekið mark á ráðleggingum fagfólks heldur lét hann hjá líða að upplýsa þingheim um það. „Ef að þetta eru vinnubrögð sem við ætlum að láta viðgangast, hvert förum við héðan?“

Prófsteinn á endurreisn Íslands

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði málið prófstein á endurreisn Íslands eftir hrun. „Erum við enn föst í fyrir hruns hjólförunum þar sem frændhygli og gerræðisleg vinnubrögð ráðherra eru daglegt brauð eða erum við komin fram á veginn þar sem slík vinnubrögð líðast ekki og kalla á eðlilegar pólitískar afleiðingar?  Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að falla á sínu fyrsta prófi?“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði að sér þætti mjög alvarlegt að ráðherra hefði hunsað ráðleggingar sérfræðinga, þingmanna og fleiri og gert það sem honum sýndist og svo ekki borið ábyrgð á því. „Og hvað, á hún ekki að segja af sér þegar í ljós kom að þetta er bara vitleysa?“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, rifjaði upp þau ummæli Sigríðar að hún væri ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. „Ef dómsmálaráðherra kemst upp með það án allra afleiðinga hvers vegna geta  þá ekki allir aðrir sem hljóta dóm í Hæstarétti eða á hvaða dómsstigi sem er komist hjá því að axla ábyrgð á brotum sínum?“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom Sigríði Andersen til varnar. „Þessi greinilega skipulagða uppákoma af hálfu stjórnarandstöðunnar er auðvitað mjög sérkennileg í ljósi þess að þessi mál sem hér er verið að ræða eru enn til umfjöllunar í stjórnskipunar-  og eftirlitsnefnd.“ Birgir sagði að menn gætu haft mismunandi skoðanir á dómum Hæstaréttar en eftir dómsorðinu er auðvitað farið, það er það sem skiptir máli.“ Sagði hann ásakanir á hendur dómsmálaráðherra að sínu mati „fullkomlega tilhæfulausar“.

Sigríður Á. Andersen sat fyrir svörum á opnum fundi stjórnskipunar- …
Sigríður Á. Andersen sat fyrir svörum á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði málið ákaflega dapurlegt. Sagðist hann hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. „Ég trúi því ekki að forsætisráðherra leggi blessun sína yfir þessar embættisfærslur.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, benti á að þingmenn hefðu treyst ráðherranum sem lagði fram tillögu sína um uppröðun dómara. Hins vegar hefðu þingmenn ekki á þeim tímapunkti vitað um að sérfræðingar hefðu ráðlagt henni frá því. „Þessir þingmenn eru óánægðir og telja ráðherrann hafa brugðist trausti sínu.“

Ráðherrann tvísaga

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sagðist hafa spurt forsætisráðherra hvenær brot væru nógu alvarleg svo að ráðherra þurfti að axla ábyrgð en engin svör fengið. „Það er alveg ljóst að dómsmálaráðherra hefur haldið mjög óhönduglega á þessu máli. Það dylst engum. Það má segja að ráðherrann hafi orðið tvísaga í einhverjum tilvikum. [...] Ráðherra sem er dæmdur hann getur varla setið í skjóli alþingis.“ Sagði hann „siðferðispostula“ Vinstri grænna áður hafa messað yfir hinum og þessum um hversu slæmir þeir væru en nú væri hljóðið allt annað. „Og nú mun VG verja þennan dómsmálaráðherra með kjafti og klóm. Og vitið þið af hverju? Það er vegna þess að ef hún þarf að víkja mun þeirra ráðherra einnig þurfa að víkja. Vegna þess að hún fékk dóm við sama dómsstól og þessi dómsmálaráðherra sem hér situr.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði dómsmálaráðherra ekki einu sinni getað viðurkennt mistök sín og sýni enga iðrun. „Í hvert einasta sinn sem dómsmálaráðherra kemur fram með tillögu sem þingmenn hafa áhuga á, á þá alltaf að vefengja það sem ráðherra segir?“ Sagði hann það algjörlega grunnforsendu traust að þegar fólk geri  mistök viðurkenni það. „Pólitísk ábyrgð, virðulegi forseti, hvílíkt bull!“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Alþingi hafa unnið í góðri trú en einfaldlega ekki haft þær upplýsingar sem til þurfti til að taklega ákvörðun um skipan dómara. „Þingið getur ekki treyst því að ekki sé um geðþótta ákvarðanir hennar að ræða eftirleiðis og þingið þarf þess vegna ævinlega að skoða allan hennar málatilbúnað og allar hennar tillögur með smásjá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert