Óhreinsað skólp rann út í sjó

Neyðarlúga skólpdælustöðvarinnar við Skeljanes var opin í tíu klukkutíma á …
Neyðarlúga skólpdælustöðvarinnar við Skeljanes var opin í tíu klukkutíma á föstudag vegna mikillar úrkomu. Mynd/Veitur

Blanda af óhreinsuðu skólpi og yfirborðsvatni rann út í sjó um tíma á föstudag þegar neyðarlúga skólpdælustöðvarinnar við Skeljanes var opin í tíu klukkutíma.

Ekki var um bilun að ræða í aðalskólpdælunni, heldur var neyðarlúgan í notkun vegna mikillar úrkomu, að sögn Ólafar Snæhólm, upplýsingafulltrúa Veitna.

„Þegar mikið af ofanvatni kemur ofan í kerfið opnast neyðarlúgan. Þetta er útþynnt skólp þar sem þetta er mikið til ofanvatn,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

Ekki liggur fyrir hversu mikið magn af óhreinsuðu skólpi rann út í sjóinn en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur fengið tilkynningu um málið.

Svona nokkuð getur gerst þegar mikil úrkoma verður. „Þegar skólp og regnvatn er í sömu lögnunum hafa dælurnar ekki undan,“ segir Ólöf.

Rétt er að taka fram að ekki er um sömu neyðarlúgu að ræða og þá sem bilaði við Faxaskjól í sumar, þegar mikið magn óhreinsaðs skólps flæddi út í sjó.

Hér er hægt að fylgjast með Fráveitusjá Veitna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert