Klósettið er ekki ruslafata

Mynd/Veitur

Veitur ætla nú að hamra á skilaboðum sínum um skólpkerfið og koma í dreifingu nýju fræðsluefni vegna þeirra hreinsunarstarfa starfsmanna fyrirtækisins en í fjörum borgarinnar fundu þeir rusl af ýmsum toga sem kom augljóslega úr fráveitukerfinu.

Neyðarlúga skólp­stöðvar­inn­ar í Faxa­skjóli bilaði 12. júní sl. og úr lúgunni rann óhreinsað skólp út í sjó í 18 daga í júní og júlí, á meðan á viðgerð stóð. Veit­ur unnu því að hreins­un­ar­störf­um í fjör­um nágrennisins og fannst þá á köflum rusl sem augljóslega átti upptök sín í fráveitukerfinu. Mest var tínt af blautþurrkum og eyrnapinnum en auk þess mátti finna smokka, dömubindi og umbúðir utan af túrtöppum svo eitthvað sé nefnt.

Fræða íbúa betur um fráveituna

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna, segir að áætlanir séu nú uppi um að fræða íbúa betur um hvað megi og hvað megi ekki fara í skólpkerfið. Verði hamrað á eldri auglýsingaherferðum og fræðsluefni. Þá kemur fram í minnisblaði Veitna að enn verði starfað eftir kynningaráætlun sem gerð var fyrir þremur árum fyrir allar veitur.

Mynd/Veitur

Hver veita á sinn þemadag og Veitur hafa haft fráveituna sem sitt þema ár hvert, í tengslum við alþjóðlega klósettdaginn 19. nóvember. Verður því þema haldið áfram í ár og verður kynningarefni af ýmsum toga dreift í tengslum við það, bæði nýju og gömlu.

Má þar nefna hollráðasíðu Veitna á vef þeirra undir fyrirsögninni „Klósettið er ekki ruslafata“, myndbönd sem dreift var á samfélagsmiðlum, auglýsingar í blöðum, vefborða í vefmiðlum og upplýsingaskilti í miðborginni. 

Skaðvaldurinn blautþurrkan

Áætlun fyrir þemadaga haustsins 2017 er að endurtaka herferðina „Blautþurrkan er martröð í pípunum“ sem vekur athygli á „skaðvaldinum blautþurrkunni“. Herferðin naut mikillar athygli á síðasta ári. 

Þá segir Eiríkur að Veitur ætli auk þess að framleiða nýtt dreifiefni, þar á meðal ætli fyrirtækið að koma límmiðum í dreifingu til rekstraraðila, t.d. veitingahúsa til nota á salernum.

Hér má sjá auglýsingu Veitna „Martröð í pípunum“.


mbl.is