Hvatti þingmenn til dáða

Frá rakarastofuráðstefnunni á Alþingi.
Frá rakarastofuráðstefnunni á Alþingi. mbl.is/Eggert

„Nú er það í ykkar höndum að ákveða hvernig þið vinnið úr því sem við gerðum hér í dag,“ sagði Ásdís Ólafsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, í samantekt sinni á hinni svokölluðu rakarastofuráðstefnu sem var haldin á Alþingi í dag í tilefni af #metoo-byltingunni.

Hún sagðist hafa skorað á þingmenn í upphafi ráðstefnunnar að taka þátt, ekki sem fulltrúa flokka sinna, kjördæma eða baráttumála, heldur sem þeir sjálfir. Hvatti hún þá til að lýsa skoðunum sínum og reynslu óhræddir og treysta hver öðrum. Í framhaldinu yrði hægt að vinna út frá þeim hugmyndum sem þeir deildu saman.

„Þið stóðust áskorunina með prýði og gott betur en það,“ sagði hún.

Orð breyta ekki miklu ein og sér

Ásdís sagði ljóst að ekki verði miklu breytt með tveggja tíma umræðum, þrátt fyrir að þær hafi gengið vonum framar. Núna þurfi þingmenn að láta hendur standa fram úr ermum, koma með hugmyndir og ákveða hvernig þeir ætla að „taka þennan slag áfram“.

„Það hafa margir sent frá sér yfirlýsingar í kjölfarið á #metoo,“ bætti hún við. „Ein og sér breyta orð ekki miklu. Þeim þarf að fylgja eftir.“

Hún sagði þingmennina hafa staðið sig stórkostlega í að færa okkur nær jafnrétti en verkefnið framundan sé enn stærra. „Tryggið að við höldum áfram. Takið fast á þessum málum.“

Bylting í mannlegum samskiptum

Að máli hennar loknu stigu þingmenn þingflokkanna í pontu og lásu upp yfirlýsingar sínar. Þeir fögnuðu framtakinu og greindu frá frá áframhaldandi vinnu sinna flokka gegn kynbundnu ofbeldi og fyrir auknu jafnrétti í samfélaginu.

Ólafur Þór Gunnarsson talaði fyrir hönd fyrir Vinstri grænna, Þorsteinn Víglundsson fyrir Viðreisn, Þórunn Egilsdóttir fyrir Framsóknarflokkinn, Oddný G. Harðardóttir fyrir Samfylkinguna, Guðmundur Ingi Kristinsson fyrir Flokk fólksins, Helgi Hrafn Gunnarsson fyrir Pírata, Birgir Ármannsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Þorsteinn Sæmundsson fyrir Miðflokkinn.

„#metoo er bylting, ekki bara þegar kemur að áreitni gagnvart konum eða börnum heldur bylting í mannlegum samskiptum,“ sagði Helgi Hrafn.

Hann sagðist aldrei hafa upplifað jafn áhugaverðan, gagnlegan, mikilvægan og skemmtilegan dag. „Þetta var frábært. Ég vona að við gerum þetta aftur,“ sagði hann og ætlar að stinga upp á því að ráðstefna sem þessi verði haldin árlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka