„Eins og litlir krakkar úti að leika“

Þegar ekki er fært á skíðasvæðið þá redda konur sér.
Þegar ekki er fært á skíðasvæðið þá redda konur sér. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

„Þetta var alveg yndislegt. Við tróðum sporin sjálfar í tvöfaldri röð og náðum að gera ágætis spor. Svo stoppuðum við og tókum myndir og lékum okkur. Ég held að bæði þær og bæjarbúar hafi haft gaman af þessu. Við vorum eins og litlir krakkar úti að leika. Við fundum stóran skafl sem gröfurnar höfðu mokað af götunum, klifruðum þar upp og renndum okkur og lékum.“

Þetta segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir sem ásamt hópi gönguskíðakvenna gerði gott úr ófærðinni á Ísafirði í dag. Ekki var hægt að komast á æfingasvæðið inni í Seljalandsdal og gripu konurnar því til þess ráðs að taka skíðaæfinguna í bænum og vöktu mikla athygli bæjarbúa.

Gleðin var við völd á Ísafirði í dag.
Gleðin var við völd á Ísafirði í dag. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

„Við spenntum bara á okkur skíðin fyrir utan hótelið og tókum einn monthring um bæinn. Við gengum um allar helstu götur Ísafjarðar og sýndum þeim merkustu húsin okkar.“

Hólmfríður stjórnar gönguskíðanámskeiðum fyrir konur, sem haldin eru á vegum Hótel Ísafjarðar. Námskeiðin standa yfir í þrjá daga og á þeim tíma eru teknar sex æfingar. „Við erum bæði með tækniæfingar, þrautir og leiki. Þetta snýst mikið um að fara út að leika og njóta,“ segir Hólmfríður um námskeiðin. „Þetta námskeið byrjaði á fimmtudaginn og því átti að ljúka í dag, en vegna veðurs verða þær aðeins lengur hjá okkur en til stóð.“ Hólmfríður segir konurnar þó ekkert leiðar yfir því enda dvelji þær í góðu yfirlæti á Hótel Ísafirði.

Námskeiðin eru sótt af konum um allt land en í hópnum núna eru bæði konur að sunnan og norðan, að sögn Hólmfríðar og kunnu þær allar vel að meta snjóinn í dag, þrátt fyrir að mikið hafi verið af honum.

Hólmfríður segir þær hafa náð að troða ágætis spor.
Hólmfríður segir þær hafa náð að troða ágætis spor. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

„Æfingasvæðið okkar er uppi í Seljalandsdal, við köllum það að fara upp á dal. Við ætluðum þangað eða inn í Tunguskóg, en þar sem allar götur voru ófærar vegna fannfergis var ekkert mokað,“ segir Hólmfríður, en hópurinn ætlaði ekki að láta fannfergið aftra sér og því var skíðað um bæinn í staðinn.

Hólmfríður segir hópinn svo hafa farið í sund og á kaffihús og þá hafi kaupmenn bæjarins opnað verslanir sínar, þannig nóg var við að vera í dag.

Konurnar fengu aukadag á Ísafirði vegna veðurs.
Konurnar fengu aukadag á Ísafirði vegna veðurs. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
Eftir æfingu skelltu konurnar sér í sund og á kaffihús …
Eftir æfingu skelltu konurnar sér í sund og á kaffihús og kíktu í búðir. Mynd/Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert