Sif biður skjólstæðinga sína afsökunar

Sif Konráðsdóttir.
Sif Konráðsdóttir.

Sif Konráðsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður umhverfisráðherra, biður skjólstæðinga sína innilegrar afsökunar í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér vegna starfsloka sinna. 

Frétt mbl.is: Guðmundur Ingi lætur Sif fara

Sif segir að uppgjör við skjólstæðinga sína hafi dregist á langinn þegar hún hætti lögmannsstörfum árið 2007 og flutti til útlanda af persónulegum ástæðum. „Í kjölfarið hóf ég störf hjá alþjóðastofnun og lagði tímabundið inn lögmannsréttindi mín, svo sem mér bar að gera. Allmörgum málum var ólokið þegar ég fór utan, þar á meðal uppgjöri við þrjá skjólstæðinga mína sem verið höfðu brotaþolar í tveimur kynferðisbrotamálum. Uppgjör við þá dróst úr hömlu af ástæðum sem ég ber ábyrgð á,“ segir í yfirlýsingu Sifjar.  

Sif segir að sér þyki afar leitt að hafa valdið skjólstæðingum sínum óþarfa óþægindum og hugarangri umfram það sem þeir höfðu þegar mátt þola og biður þá innilega afsökunar á því.

„Rétt er að fram komi að fjármunirnir voru alla tíð til staðar hér á landi og allir fengu greitt að fullu, þótt það hafi dregist óhæfilega, eða þar til í janúar 2008,“ segir í yfirlýsingunni. 

Yfirlýsing Sifjar í heild sinni: 

Yfirlýsing frá Sif Konráðsdóttur 

Í ljósi frétta að undanförnu vegna uppgjörs við skjólstæðinga mína frá árinu 2008 og ótímabærra starfsloka minna sem aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra vil ég gjarnan taka fram eftirfarandi:

Ég lét af lögmannstörfum haustið 2007 og flutti til útlanda af persónulegum ástæðum. Í kjölfarið hóf ég störf hjá alþjóðastofnun og lagði tímabundið inn lögmannsréttindi mín, svo sem mér bar að gera. Allmörgum málum var ólokið þegar ég fór utan, þar á meðal uppgjöri við þrjá skjólstæðinga mína sem verið höfðu brotaþolar í tveimur kynferðisbrotamálum. Uppgjör við þá dróst úr hömlu af ástæðum sem ég ber ábyrgð á.

Mér þykir afar leitt að hafa valdið þessum skjólstæðingum mínum óþarfa óþægindum og hugarangri umfram það sem þeir höfðu þegar mátt þola og bið þá innilega afsökunar á því.

Rétt er að fram komi að fjármunirnir voru alla tíð til staðar hér á landi og allir fengu greitt að fullu, þótt það hafi dregist óhæfilega, eða þar til í janúar 2008.

Virðingarfyllst,

Sif Konráðsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert