Bílar farnir að kastast til á Reykjanesbrautinni

Hér má sjá hvaða vegum á Suðvesturlandi hafði verið lokað …
Hér má sjá hvaða vegum á Suðvesturlandi hafði verið lokað klukkan 7.24 í morgun. Skjáskot/Vegagerðin

Reykjanesbrautinni var lokað fyrir umferð nú um hálfátta, en ástandið þar var farið að verða slæmt að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Einnig er búið að loka á umferð um Kjalarnesið þar sem einnig var orðið verulega hvasst.

Áður var búið að loka á umferð um Hell­is­heiði, Sand­skeið, Þrengsl­in, Mos­fells­heiði og Nesja­valla­leið. Þá var veg­in­um um Lyng­dals­heiði lokað klukk­an 7 og einnig er búið að loka Grindavíkurvegi.

102 björgunarsveitarmenn voru til taks nú á áttunda tímanum í morgun og manna þeir m.a. lokanir vega.

„Það voru farnar að koma tilkynningar frá vegfarendum um að bílar séu farnir að kastast til á Reykjanesbrautinni,“ segir Davíð Már. 

Fyrstu tilkynningar björgunarsveita um verkefni bárust inn rétt fyrir klukkan sjö. „Þá komu inn tilkynningar um fasta bíla í Þrengslunum, við Esjumela og Sandskeið.“

Um sexleytið í morgun voru 70 manns komnir í hús björgunarsveitanna víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og voru tilbúnir í verkefni. Um svipað leyti fóru hópar í fyrirframákveðnar lokanir, en lokun nokkurra vega til viðbótar hefur síðan bæst við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert