Selaveisla með samgöngunefnd?

Steinunn Káradóttir og Eyþór Stefánsson fengu heimamenn til að steypa …
Steinunn Káradóttir og Eyþór Stefánsson fengu heimamenn til að steypa saman fyrstu metra vegarins á mánudag. Ljósmynd/Sigurður Aðalsteinsson

„Núna finnst okkur boltinn vera hjá yfirvöldum,“ segir Eyþór Stefánsson en hann var einn þeirra sem skipulagði viðburð þar sem íbúar á Borgarfirði eystra steyptu þriggja metra langan vegakafla á mánudag. Heimafólk er langþreytt á aðgerðaleysi stjórnvalda og slæmum veg.

„Við vonum að þessir þingmenn okkar grípi boltann. Nú er lag fyrir þá að tala við okkur eftir að við höfum verið í umræðunni en það sjá allir að þetta er glataður vegur,“ segir Eyþór.

Eins og sést á þessari mynd er vegurinn illa farinn.
Eins og sést á þessari mynd er vegurinn illa farinn. Ljósmynd/Eyþór Hannesson

Hann segir að það hafi komið til tals að bjóða samgöngunefnd og samgönguráðherra í selaveislu í Borgarfjörð. Þegar þangað væri komið myndu þingmennirnir sjá að úrbóta er þörf. „Þetta væri þá undir yfirskriftinni selaveisla með samgöngunefnd,“ segir Eyþór.

Vonast til að komast á kortið

Áður hefur verið bent á að af 70 kílómetra vegkafla frá Borgarfirði eystri til Egilsstaða eru 28 kílómetrar ekki malbikaðir. Kaflinn um Njarðvíkurskriður er einn þeirra. Hann er 3,2 kílómetrar að lengd og talið er að það kosti um 200 - 250 milljónir að malbika hlutann. Íbúar steyptu þriggja metra hluta af þeim kafla á mánudag.

Eyþór segir að það sé mikill hugur í íbúum. „Við erum ekki hætt og munum halda áfram að mótmæla ef þetta verður sett ofan í skúffu og látið rykfalla þar. Hins vegar vonumst við til þess að komast á kortið.“

Borgfirðingar við steypuvinnuna.
Borgfirðingar við steypuvinnuna. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Leiðinlega líklegt að við gleymumst“

Sveitastjórn Borgarfjarðar mun í sumar leggja þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara til Njarðvíkur en Eyþór segir að það væri sóun á almannafé ef það á að hreyfa jörð þar án þess að laga veginn. 

Þrátt fyrir mikinn hug í fólk segist Eyþór hafa áhyggjur af því að ekkert verði gert. „Auðvitað segir reynslan okkur það að það er leiðinlega líklegt að við gleymumst. Við erum það austarlega að þingmenn kjördæmisins hafa verið latir við að sýna okkur áhuga. Það eru ekki mörg atkvæði sem þeir sækja til okkar en við neitum að trúa því að það sé opinber stefna stjórnvalda í samgöngumálum Borgarfjarðar að bíða eftir því að við verðum svo fá að það þurfi ekki að gera neitt í þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert