Skólahald fellur niður fyrir hádegi

Það má jafnvel búast við ofsaveðri, vindhraða yfir 28 m/s, …
Það má jafnvel búast við ofsaveðri, vindhraða yfir 28 m/s, á Kjalarnesi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt skólahald í leik- og grunnskólum á Kjalarnesi fellur niður fyrir hádegi í dag, miðvikudag, þar sem von er á ofsaveðri með morgninum, að sögn Brynhildar Hrundar Jónsdóttur, deildarstjóra í Klébergsskóla. „Skólahald hefst svo aftur þegar veðrið gengur niður,“ segir hún í samtali við mbl.is. Hún biður forráðamenn barna að fylgjast vel með veðurspánni og fréttum á heimasíðu skólans. 

„Það er þegar orðið vel hvasst,“ segir Brynhildur en veginum um Kjalarnes var lokað á áttunda tímanum í morgun. 

Í tilkynningu frá bæði lögreglu og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að veður gæti seinkað ferðum nemenda í skóla í dag. „Skólar eru opnir, en mikilvægt er að foreldrar gæti þess að yngri börn fari ekki ein í skóla, þetta á sérstaklega við í efri byggðum og þar sem börn þurfa að fara yfir opin svæði á leið sinni í skóla. Með yngri börnum er hér átt við 12 ára og yngri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert