Dómarar sem deilt er um dæma í Hæstarétti

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Gert er ráð fyrir því að fjórir landsréttardómara, sem skipaðir voru af dómsmálaráðherra á síðasta ári en voru ekki á meðal þeirra umsækjenda sem hæfisnefnd lagði til að yrðu skipaðir, dæmi í málum í Hæstarétti á næstunni samkvæmt vefsíðu réttarins. Dómararnir eru Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.

Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hefur óskað eftir því að einn dómaranna, Arnfríður Einarsdóttir, víki sæti sem landsréttardómari í máli skjólstæðings síns á þeim forsendum að hún hafi ekki verið skipuð með réttum hætti. Hefur hann sagt að skipan hennar hafi vakið upp efasemdir hjá skjólstæðingi hans um sjálfstæði dómstólsins.

Landsréttur hefur staðfest hæfi Arnfríðar, Ragnheiðar og Ásmundar en búist er við að látið verði einnig reyna á hæfi þeirra fyrir Hæstarétti. Einnig hefur verið rætt um þann möguleika að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert