„Byltingin ólgar í æðum hans“

Haukur Hilmarsson er talinn af í Sýrlandi.
Haukur Hilmarsson er talinn af í Sýrlandi. Skjáskot

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, sem talinn er hafa látist í átökum við tyrkneska herinn í Afrin-héraði í Sýrlandi í lok febrúar, þar sem hann tók þátt í frelsisbaráttu Kúrda, endurbirti í dag hugleiðingar sem hún skrifaði um son sinn árið 2003.

„Sonur minn Byltingamaðurinn ætlar að verða Che Guevara þegar hann er orðinn stór. Honum eru nú sprottin 5 skegghár og fátt þykir honum skemmtilegra en mótmælagöngur. Hann er harmi sleginn yfir neysluhyggju móður sinnar sem telur sig þurfa að eiga fleiri en 4 matardiska fyrir 3ja manna heimili og álítur að sófagarmur á fertugsaldri sé ónýtur, bara af því að botninn er dottinn úr honum. Slík viðhorf þykja syni mínum Byltingamanninum bera vott um spillingu,“ skrifaði Eva meðal annars á bloggsíðu sína árið 2003. Færsluna endurbirti hún í dag.

Í færslunni rifjaði hún einnig upp að hún hefði setið á rúmstokknum hjá honum þegar hann var lítill og horft á hann sofa. „Ég geri það auðvitað ekki lengur. En nú kemur fyrir að ég vakna upp úr miðnætti með son minn Byltingamanninn á rúmstokknum því þegar maður er ungur, liggur manni stundum svo mikið á hjarta að það þolir alls ekki að bíða til morguns.“

Eva sagði að í huga hans hefðu eingyðistrúarbrögð verið aðferð myrkraverkamanna veraldarinnar til að kúga og heilaþvo einfeldninga og halda almenningi í fátækt og fáfræði. Og sennilega væri heilmikið til í því, þrátt fyrir að framsetning hugmynda Hauks væri ungæðisleg á köflum.

„Byltingin ólgar í æðum hans. Hugarheimur hans hefur svosem ýmsa afkima en á stóra sviðinu fer fram heilagt stríð gegn óhamingju veraldarinnar sem hann skrifar ýmist á alheimsstjórn Bush Bandaríkjaforseta, almenna neysluhyggju Vesturlandabúa eða útsendara Landsvirkjunar sem hvísla í hjörtum mannanna. Síðustu vikurnar hefur hann samt sem áður stöku sinnum nefnt Kárahnjúkavirkjun á nafn án þess að froðufella af heilagri reiði og hann ræðir æ sjaldnar áætlanir sínar um að sprengja stífluna í loft upp og ráða forkólfa Landsvirkjunar af dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert