„Sláandi upplýsingar“ koma fram í nafnlausu bréfi

Haukur Hilmarsson. Myndin er tekin úr myndskeiði sem útlendingahersveitin International …
Haukur Hilmarsson. Myndin er tekin úr myndskeiði sem útlendingahersveitin International Freedom Battalion birti.

Guðbjörn Dan Gunnarsson, frændi Hauks Hilmarssonar sem talið er að hafi fallið í loft­árás tyrk­neska hers­ins 24. fe­brú­ar árið 2018 í Sýrlandi, segist hafa fengið nafnlaust bréf frá manneskju sem segist vera starfsmaður utanríkisráðuneytisins. Guðbjörn, sem alla jafna er kallaður Beggi, segir að þær upplýsingar sem fram komi í bréfinu séu sláandi, en þær varða meðferð ráðuneytisins á máli Hauks. 

„Bréfritari segist vinna í utanríkisráðuneytinu og er þarna að miðla ákveðnum upplýsingum um hvernig var staðið að máli frænda míns. Þetta er sláandi. Mér fannst ekki rétt að birta bréfið án þess að fá einhverja staðfestingu á því hver hafi skrifað það,“ segir Beggi í samtali við mbl.is.

Enginn hefur gefið sig fram

„Bréfið er nafnlaust en hins vegar er talað um ákveðna aðila innan ráðuneytisins. Mér fannst rétt að reyna fyrst að fá staðfestingu á hver skrifaði bréfið svo ég viti að þetta sé raunverulegt, því vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að þetta bréf sé skrifað til að koma höggi á þennan aðila hjá ráðuneytinu í einhverjum pólitískum tilgangi,“ segir Beggi. 

Beggi segir engan hafa gefið sig fram við hann vegna bréfaskrifanna. Hann vill ekki upplýsa um efni bréfsins enn sem komið er. 

„Ég bara bíð og vona og við öll fjölskyldan. Þetta er stórt mál og sláandi upplýsingarnar sem þarna koma fram og ef þetta reynist rétt er þetta að staðfesta okkar grunsemdir frá upphafi um hvernig staðið var að málinu,“ segir Beggi, en hann segir að af efni bréfsins að dæma gæti sá sem það skrifaði verið uppljóstrari (e. whistleblower). 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert