Umferðin stærsta örplastsuppsprettan

Stærstu uppsprettu örplastagna kemur frá vegakerfinu og umferðinni.
Stærstu uppsprettu örplastagna kemur frá vegakerfinu og umferðinni. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Stærri fleytikör og öflugari síur eru meðal þeirra lausna sem Veitur eru með til óformlegrar skoðunar varðandi leiðir til að draga úr því að örplast berist til sjávar. Þetta segir Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu Veitna, í samtali við mbl.is.

„Við erum búin að vera að skoða örplast mikið í bæði fráveitum og neysluvatni hjá Veitum,“ segir Íris sem hélt erindi um málið á Vísindadegi OR í dag.

„Stærsta uppsprettan er frá vegakerfinu og umferð,“ segir Íris og nefnir niðurbrot frá dekkjum. „Síðan koma gervigrasvellir þar á eftir og svo gerviefnafötin okkar.“ Þá berist örplastagnir einnig frá málningu, sem og veiðafærum og tæringu frá skipum.

1.500 örplastagnir á rúmmetrann

„Í Reykjavík erum við bara með grófhreinsun á skólpi,“ segir hún og kveður Veitur hafa verið að skoða hversu mikið örplast berst í fráveitukerfið. Síur Veitna hreinsa agnir niður í 3 mm, en örplast eru plastagnir sem eru minni en 5 mm að þvermáli og er hluti þeirra jafnvel ekki nema nokkrir míkrómetrar að þvermáli. „Það örplast sem berst í fráveituna hreinsast því að mjög litlu magni út í hreinsistöðvunum okkar. Nýjustu rannsóknir sýna að um 1.500 agnir af örplasti mælast á hvern rúmmetra og er það sambærilegt við niðurstöður rannsóknar sem Matís gerði fyrir tveimur árum.“

Íris segir þó þörf á frekari rannsóknum, sem m.a. séu gerðar við mismunandi veðurfarsskilyrði. „Það má t.d. ímynda sér að mikið komi frá götunum þegar það er mikil rigning,“ segir hún.

Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu Veitna, segir Orkuveituna geta gert meira …
Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu Veitna, segir Orkuveituna geta gert meira af því að hreinsa regnvatni sem berst frá vegum, t.d. með blágrænum ofanvantslausnum. Ljósmynd/Aðsend

Ýmsar þekktar aðferðir eru til að hreinsa örplast í hreinsistöðvunum og eru nokkrar slíkar til óformlegrar skoðunar hjá Veitum. „Við höfum aðallega verið að horfa á stærri fleytikör þar sem sem örplastið sest þá í seyru,“ segir Íris. „Þetta er þekkt aðferð fyrir fyrsta þreps hreinsun í hreinsistöðvunum. Síðan væri líka hægt að setja aðrar og minni síur fyrir aftan 3 mm síurnar sem við erum með í dag og þetta eru aðferðir sem við fyrstu sýn virðast vera gerlegar.“

Slíkar lausnir feli þó í sér að stækka þurfi hreinsistöðvarnar með tilheyrandi kostnaði. „Síðan sitjum við þá uppi með seyru sem inniheldur örplast.“

Seyran rík af næringarefnum

Seyra sé nefnilega verðmæt af næringarefnum hana megi nýt, enda séu næringarefni eins og svo margt annað hverfandi auðlind. Íris nefnir sem dæmi að Landgræðslan sé með tvö tilraunaverkefni í gangi þar sem seyra er nýtt i uppgræðslu. „Það má má nýta hana sem næringarefni á land, en þá erum við aftur að dreifa örplasti aftur á land af því að örplastið hverfur ekki.“ Örplastið valdi þó mögulega minni skaða er það er bundið jarðvegi, en það gerir í hafinu.

„Önnur leið er að seyran fari þá bara í urðun eða brennslu, en þá er verið að henda auðlind. Þannig að þetta kemur alltaf aftur að því að það þurfi að draga úr örplasti á upprunastað,“ segir Íris.

Vandast er kemur að fatnaði

Niðurbrot á hjólbörðum við akstur sé enn eitt lóðið á vogaskálar þeirra hvetja til þess að dregið sé úr akstri og almenningssamgöngur nýttar í auknum mæli. „Það er nefnilega ekki bara útblásturinn, það er líka eyðing gatna og svo örplastið.“

Málið vandist kannski frekar varðandi örplastið sem kemur úr fatnaði. „60% af fatnaði okkar er unnin úr gerviefnum. Erum við tilbúin að breyta hegðun okkar þar?“ spyr Íris. „Við getum keypt minna af fatnaði úr gerviefnum og þvegið föt okkar sjaldnar og á minni hita. Þetta og aksturinn er hins vegar eitthvað sem þarf að fá alla með í.“

Orkuveitan geti hins vegar gert meira af því að hreinsa regnvatni sem berst frá vegum. „Til dæmis með blágrænum ofanvatnslausnum og það er raunar verkefni sem við erum þegar að vinna að með Reykjavíkurborg. Það  gengur út á að ofanvant renni ekki beint í niðurföll heldur út í græna geira. Með því móti binst örplast, ryk og skítur frá götum jarðveginum og veldur þar með minni skaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert