Segir ítrekaðar rangfærslur hafa komið fram

Austurgata 36 í Hafnarfirði.
Austurgata 36 í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert

Samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar segir að ítrekaðar rangfærslur hafi komið fram í fréttum síðustu vikna vegna aðkomu Hafnarfjarðarbæjar á málum tengdum húseigninni að Austurgötu 36 í Hafnarfirði.

Ingvar Ari Ara­son kvartaði í dag undan seinagangi bæjaryfirvalda en hann telur að það séu í það minnsta fjögur ár í að hann og eiginkona hans geti byggt nýtt hús en þau misstu al­eig­una eft­ir að upp komst um veggjatítlu og myglu í húsi þeirra fyr­ir tæpu ári.

Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann fer yfir helstu tímasetningar. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan:

Vegna ítrekaðra rangfærslna um aðkomu og afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á málum tengdum húseigninni að Austurgötu 36 í Hafnarfirði í fréttum síðustu vikna vill Hafnarfjarðarbær koma eftirfarandi á framfæri:

Síðustu vikur og nú síðast í dag er bæjaryfirvöldum gerð upp afstaða og aðgerðaleysi í aðkomu sinni að málum húseignarinnar að Austurgötu 36 í Hafnarfirði. Fjölmiðlar sem unnið hafa þær fréttir hafa hvorki leitað upplýsinga frá bænum né óskað eftir viðbrögðum við þessum fréttaflutningi. Þess vegna er ákveðið að senda út eftirfarandi upplýsingar um stöðu málsins og helstu tímasetningar á afgreiðslu málsins.

Þann 10. maí 2017 var lögð fram beiðni í bæjarráði frá húseigendum um styrkveitingu vegna altjóns á fasteigninni að Austurgötu 36. Á þeim fundi samþykkti bæjarráð að styrkja húseigendur um allt að 3,7 milljónir króna til niðurrifs hússins í samræmi við kostnaðarmat af hálfu umhverfis- og skipulagsþjónustu. Framkvæmdir skulu gerðar í fullu samráði við Hafnarfjarðarbæ. Þessi ákvörðun stendur og með henni kemur fram stuðningur bæjarins við húseigendur.

Þann 11. október 2017 var tekin fyrir umsókn um niðurrif á húsinu við Austurgötu 36 á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa. Lagt var fram starfsleyfi til niðurrifs hússins og bréf Minjastofnunar Íslands um afnám friðunar. Byggingarfulltrúi samþykkti erindi húseigenda á fundinum, það er niðurrif á húsinu. Framkvæmdaleyfi fyrir niðurrifinu verður gefið út í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar að öllum skilyrðum uppfylltum að hálfu lóðarhafa. 

Í gær miðvikudaginn 14. mars, samþykkti bæjarstjórn á fundi sínum breytingu á deiliskipulagi vegna Austurgötu 36 í samræmi við umsókn lóðarhafa.

Af framangreindu er ljóst að það er rangt eins og ítrekað hefur verið haldið fram að leyfi til niðurrifs hafi verið afturkallað, framkvæmdaleyfi til niðurrifs verður gefið út þegar lóðarhafar hafa uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar s.s. að tilgreina byggingarstjóra.

Rétt er að geta þess að húsið er í miðbæ Hafnarfjarðarbæjar og samkvæmt aðalskipulagi bæjarins er götumynd Austurgötunnar friðuð. Samkvæmt þessari verndun götumyndarinnar er ekki heimilt að rífa hús nema í undantekningartilfellum sem bærinn hefur nú leyft.

Málsmeðferðin hjá Hafnarfjarðarbæ hefur verið í samræmi við lög og reglur. Málsmeðferðartími hefur ekki verið lengri en eðlilegt getur talist í svona máli og ekkert kemur núna í veg fyrir niðurrif hússins að hálfu bæjaryfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert