Síminn ber ábyrgð á „gagnkvæmu hirðuleysi“

Síminn ofrukkaði fyrirtækið um hýsingu á tölvupósti í fjögur ár …
Síminn ofrukkaði fyrirtækið um hýsingu á tölvupósti í fjögur ár frá því að þjónustunni hafði verið sagt upp.

Fjarskiptafyrirtækið Síminn þarf að greiða fyrirtækinu Inter Medica tæplega 950 þúsund krónur eftir að hafa rukkað félagið um mánaðarlegar greiðslur fyrir hýsingu á tölvupósti í tæplega fjögur ár, án þess að Inter Medica hafi nýtt sér þjónustuna. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem sneri við dómi héraðsdóms sem hafði sýknað Símann í málinu.

Inter Medica hafði um langt árabil verið í viðskiptasambandi við Símann, en ákvað árið 2009 að hýsa tölvupóstinn sjálft. Kom fram í dómi Hæstaréttar að fyrrverandi viðskiptastjóri Símans hafi átt í samskiptum við starfsmann Inter Medica árið 2011 og í lok þeirra skilið það sem svo að hætt yrði við hýsinguna. Í framhaldinu var hins vegar ekki rétt staðið að uppsögninni af hálfu Símans sem hélt áfram að rukka fyrirtækið mánaðarlega fyrir þjónustuna sem ekki var nýtt.

Taldi Hæstiréttur frásögn viðskiptastjórans sýna fram á hirðuleysi Símans og var hún lögð til grundvallar því að fyrirtækið hefði sagt hýsingunni upp. Þó var tekið sérstaklega fram að Inter Medica hafi einnig sýnt fram á verulegt aðgerðaleysi með því að hafa ekki fylgt eftir að Síminn hætti að krefjast greiðslu fyrir hýsinguna. Þó verði að gæta þess að sá starfsmaður sem sagði upp þjónustunni hafi hætt skömmu síðar.

Því hafi báðir málsaðilar sýnt af sér verulegt hirðuleysi í lögskiptum sín á milli. Telur dómurinn að eðlilegra sé að Síminn axli frekar en Inter Medica afleiðingar „af hinu gagnkvæma hirðuleysi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert