„Ekki eitthvað sem þú hoppar út í“

Kristbjörg segir allt hafa gengið vel í hennar tilfelli og …
Kristbjörg segir allt hafa gengið vel í hennar tilfelli og hún hefur misst 30 kíló. Mynd/Hilmar Bragi

Töluverð umfjöllun hefur verið um offituaðgerðir og alvarlega fylgikvilla þeirra síðustu vikur, en bæði landlæknir og lögregla hafa til rannsóknar tvö dauðföll sem má rekja til svokallaðra magaermaraðgerða, sem er ein tegund offituaðgerða. En fleiri aðgerðir eru í boði, eins og hjáveituaðgerð og uppsetning magabands. Þrátt fyrir að það felist alltaf áhætta í slíkum aðgerðum þá geta þær aðstoðað marga við að ná tökum á mikilli ofþyngd. Ef vel gengur geta lífsgæði sjúklingins batnað og lífslíkur jafnvel aukist til muna.

Skiptar skoðanir eru á magabandsaðgerðum, en þær eru gerðar á einni stofu hér landi, Gravitas. Í mörgum löndum er nánast hætt að gera slíkar aðgerðir en þær enn algengar á Íslandi og Bretlandi. Ástæðan sem læknar gefa fyrir því að þeir mæla ekki með þessum kosti er sú að bandið er ekki talið skila jafn miklum árangri og aðrar aðgerðir.

Erla Gerður Sveins­dótt­ir, lækn­ir og lýðheilsu­fræðing­ur, sem sér­hæf­ir sig í meðferð fólks í yfirþyngd og með offitu, sagði í viðtali í Sunnudagsmogganum síðasta sumar að magabandið breytti ekki efnaskiptum líkamans heldur minnkaði bara magamálið, en það þyrfti að hafa áhrif á efnaskiptin. Hún sagðist hafa fengið til sín sjúklinga þar sem magabandið virkaði ekki sem skyldi, en tók fram að hún sæi ekki þá sem allt gengi vel hjá.

Inngripið er hins vegar minna þegar magaband er sett upp og hægt er að fjarlægja bandið ef eitthvað kemur upp á.

Í maga­bandsaðgerðum er maga­band sett utan um efsta hluta mag­ans og þrengt að. Hægt er að stilla bandið eft­ir þörf­um en það er fyllt með vökva. Aðgerðin er gerð með kviðsjá og tek­ur stutta stund.

Fyrir suma getur tilhugsunin um minna inngrip verið þægilegri. Það eru ekki allir sem treysta sér til að fara í skurðaðgerð í þeim tilgangi að reyna að léttast, en þurfa samt á inngripi að halda.

Var orðin 148 kíló

Kristbjörg Kamilla Sigtryggsdóttir lét setja upp magaband hjá sér í desember árið 2016 og hefur misst um 30 kíló síðan. Hún hafði þá lengi glímt við ofþyngd og átti erfitt með að léttast þrátt fyrir að vera dugleg að hreyfa sig og borða hollan mat. Vandamálið hennar var að hún borðaði of og mikið og var í raun matarfíkill.

Kristbjörg var orðin 148 kíló þegar hún ákvað fara í …
Kristbjörg var orðin 148 kíló þegar hún ákvað fara í magabandsaðgerð. Mynd/Aðsend

Ítrekuð áföll í æsku og á unglingsárum urðu til þess að hún leitaði sér huggunar í mat. „Áföllin höfðu þau áhrif á mig að ég þyngdist. Ég leitaði rosa mikið í mat, því matur fyrir marga er huggun. Svo byrjaði ég með manninum mínum og við ýttum hvort öðru áfram í líkamsrækt og heilbrigðari lífsstíl. En þegar ég hafði verið að stunda mikla líkamsrækt í meira en ár og passað vel upp á matarræðið þá var afskaplega lítill árangur.“

Kristbjörg sá því að hún yrði að grípa til róttækari aðgerða, heilsunnar vegna. Hún var orðin 148 kíló og fann vel fyrir þyngdinni við daglegar athafnir. „Þegar maður er svona stór og mikill þá fylgja því rosalega miklir verkir, til dæmis í hnjám, baki og mjöðmum. Eftir að þessi kíló fóru þá líður mér miklu betur og ég er miklu tilbúnari í daginn,“ segir Kristbjörg, en hún er líka léttari andlega og hefur orðið lítið var við skammdegisþunglyndið sem gjarnan hrjáði hana á veturna.

Tjáð að magaermi hentaði best

Hún leitaði til Auðuns Sigurðssonar, skurðlæknis og eiganda Gravitas, haustið 2016 og var ákveðin í að taka vandann föstum tökum þó hún vissi að það yrði erfitt.

„Þegar ég fór fyrst í viðtal var mér tjáð að magaermi væri hentugust fyrir mig, en mér fannst ermi ekki vera það sem mig langaði að gera. Mér fannst það of mikið inngrip fyrir mig. Ég vissi að ég hafði ekki fitnað svona mikið á nokkrum dögum og gerði mér því grein fyrir því að það tæki nokkur ár fyrir kílóin að fara af. Ég ákvað því að fara í bandið. Ég þarf að læra að tyggja og læra að njóta. Ég vil líka gefa húðinni þann tíma sem hún þarf til að draga sig til baka af sjálfu sér.“

Í samtali við mbl.is fyrr á þessu ári sagði Auðun að magaband hentaði fyrst og fremst fólki með þyngdarstuðulinn 35-40 (BMI) en það væri oft erfiðara þegar þyngdarstuðullinn væri hærri.

Hann sagði magabandsaðgerðir hafa gefið góða raun bæði hér á landi og í Bretlandi, en hann hefur framkvæmt slíkar aðgerðir í báðum löndum.

Kristbjörg er ekki bara léttari líkamlega heldur líka andlega.
Kristbjörg er ekki bara léttari líkamlega heldur líka andlega. Mynd/Hilmar Bragi

Maga­bandsaðgerð tek­ur 30 mín­út­ur og sjúk­ling­ur­inn er kom­inn út af sjúkra­hús­inu tveim­ur tím­um síðar. „Þá fyrst byrj­ar meðferðin,“ sagði Auðun í viðtalinu.

„Fyrst er að koma band­inu fyr­ir á ör­ugg­an og rétt­an hátt. Síðan byrj­ar meðferðin en næstu þrjú árin er sjúk­ling­ur­inn að ná vigt­inni niður. Eft­ir það tek­ur við eft­ir­meðferð, til að mynda að sjúk­ling­ur­inn viðhaldi þyngd­inni og ef það kem­ur upp eitt­hvað vanda­mál, svo sem með maga­bandið, er mjög mik­il­vægt að sér­fræðing­ar séu til staðar sem geta gripið inn og lagað það.“

Mikilvægt að undirbúa sig og fylgja reglum

Kristbjörg segist ekki hafa fundið fyrir neinum fylgikvillum magabandsins og hún segir allt ferlið hafa gengið vel í sínu tilfelli. Hún viðurkennir þó að hafa orðið smeyk þegar hún heyrði nýlegar fréttir af konum sem létust eftir að hafa farið í magaermaaðgerð þrátt fyrir að um ólíkar aðgerðir sé að ræða. Hún segist engu að síður hafa verið meðvituð um áhættuna sem fylgdi sinni aðgerð.

„Öllum aðgerðum fylgir áhætta, en að sjálfsögðu verður maður bara að horfa á það sem tengist manni sjálfum. Ef ég myndi finna fyrir einhverjum óþægindum þá færi ég strax léti athuga það.“ Hún segir einnig mikilvægt að kynna sér hvernig magabandið virkar, bæði hjá læknum og heyra reynslusögur annarra. Hún gerði það og hafði líka stuðning af góðri vinkonu sem hafði áður fengið magaband.

Þá er mikilvægt að fylgja reglum um notkun magabands, þar sem meðal annars er kveðið á um skammastærðir og fjölda máltíða á dag.

„Þetta miðast við að maður innbyrði um tvo desilítra í einu. Sumir geta kannski borðað aðeins meira og aðrir aðeins minna. Við eigum alltaf að borða af kökudisk og úr lítilli skál, þrjár máltíðir á dag.“

Þá tekur hún litla bita á stærð við krónupening, tyggur hvern bita tuttugu sinnum áður en hún kyngir og bíður í tuttugu sekúndur áður en hún fær sér næsta bita.

Engin þessara aðgerða er skyndilausn 

Kristbjörg segir þetta mikil viðbrigði fyrir matarfíkil eins og hana og viðurkennir að það hafi tekið á að læra að borða minna í einu. „Hausinn er engan veginn að fylgja maganum og það hafa alveg komið dagar þar sem mig hefur langað að borða, en maginn stoppar mig af og bandið segir við mig að ég geti því miður ekki borða meira.“ Tilfinningin er einfaldlega þannig að Kristbjörgu finnst hún vera södd þrátt fyrir að hafa borðað mjög lítið.

Kristbjörg var í raun matarfíkill og þurfi að læra að …
Kristbjörg var í raun matarfíkill og þurfi að læra að borða minna í einu og njóta. Mynd/Aðsend

Hún segir skipta mestu máli að innbyrða mikið af próteini. „Það skiptir máli að finna gott prótein og ég vel alltaf beint frá býli. Ég hef góðan aðgang að vörum beint frá býli þar sem mamma er frístundabóndi. Fólk með magaband þarf að hugsa vel um hvað það innbyrðir því það er svo lítið sem við getum innbyrt.“

Þrátt fyrir að Kristbjörg hafi fyrst náð tökum á þyngdinni eftir þetta inngrip þá segir hún mikilvægt að hafa í huga að ekki sé um skyndilausn að ræða. Fólk þurfi að vera tilbúið að gera lífsstílsbreytingu til frambúðar og góður undirbúningur sé mikilvægur. „Þetta er ekki eitthvað sem þú hoppar út í. Engin þessara aðgerða er skyndilausn. Maður verður alltaf að horfa á þetta sem hjálpartæki. Það í raun alveg sama hvort maður er að fara í hjáveitu, ermi, band eða annað.“

Á sama tíma og Kristbjörg fékk magabandið ákvað hún að opna snapchat-reikninginn sinn og leyfa fólki að fylgjast með öllu ferlinu. Síðan þá hefur hún miðlað upplýsingum og svarað ótal fyrirspurnum frá fylgjendum sínum. „Fólk sendir mér daglega skilaboð og óskar eftir upplýsingum, til dæmis varðandi hvað er hægt að borða og verkina sem fylgja í kjölfar aðgerðarinnar. Snappið mitt er opið allan sólahringinn og fólk má senda fyrirspurn hvenær sem er.“

Áhugasamir geta fylgst með Kristbjörgu á Snapchat: bandidogeg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert