Taka mið af stærð Íslands

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum einhuga í því að taka þátt í þessum samstilltu aðgerðum gegn rússneskum yfirvöldum. Þar stöndum við með Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum, nágrönnum okkar og vinaþjóðum í NATO. En við gerum það í samræmi við okkar stærð. Það skilja það allir að við erum náttúrulega með miklu minni sendiskrifstofu en þær þjóðir sem við erum þarna að taka höndum saman við og verðum að taka mið af því.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is, en ríkisstjórn Íslands ákvað í dag að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis að grípa til aðgerða vegna efnavopnaárásar sem átti sér stað í borginni Salisbury í Bretlandi í byrjun mánaðarins þar sem beitt var taugagasi. Bresk stjórnvöld hafa fullyrt að ráðamenn í Rússlandi hafi staðið á bak við árásina en Rússar þvertaka fyrir það.

Rússneskum sendiráðsstarfsmönnum verður ekki vísað úr landi líkt og víða erlendis en þess í stað verður öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum frestað um óákveðinn tíma. Í því felst meðal annars að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi næsta sumar. 

„Þekkjum málið og skýringar Rússa“

Guðlaugur segir aðspurður að ef sendiráð Íslands í Moskvu væri stærra hefði líklega verið gripið til aðgerða í samræmi við það. Þar starfa þrír útsendir starfsmenn og Rússar hefðu væntanlega svarað í sömu mynt hefði einum sendiráðsstarfsmanni þeirra verið vísað úr landi sem hefði þýtt að sendiráðið í Rússlandi hefði verið illa starfshæft. Önnur ríki væru ekki að grípa til aðgerða sem kunni að leiða til lokunar sendiráða þeirra.

Spurður hvort bresk stjórnvöld hafi lagt fram einhverjar upplýsingar sem sýni fram á að Rússar standi á bak við árásina í Salisbury segir Guðlaugur: „Við þekkjum auðvitað málið og þekkjum þær skýringar sem rússnesk yfirvöld hafa gefið. Svör þeirra hafa einfaldlega ekki verið trúverðug og þeir hafa ekki viljað starfa með þeim alþjóðastofnunum sem sátt hefur verið um að hafi eftirlit með efnavopnamálum.“

Guðlaugur leggur áherslu á að aðgerðirnar núna snúist ekki eingöngu um árásina í Salisbury enda sé árásin hluti af röð atburða á undanförnum árum. Þar á meðal sé hernám Rússa á hluta af Úkraínu og önnur árás sem farin var í Bretlandi. „Vestræn ríki eru einfaldlega að segja hingað og ekki lengra. Við viljum auðvitað að rússnesk stjórnvöld sjái að sér. Við viljum friðsamleg samskipti á milli þeirra og annarra þjóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert