Uglan fékk gúllas í hádeginu

Uglan sem dýralæknirinn Sara Thorarensen hlúir er smám saman að braggast. mbl.is fékk að fylgjast með þegar hún fékk gúllas í hádeginu í dag sem hún virtist nokkuð ánægð með og hún lygndi aftur augunum þegar Sara strauk henni um höfuðið á milli bita.

Henni leist ekki jafn vel á aðkomumanninn og hvæsti á myndatökumann mbl.is þegar henni þótti hann vera kominn of nálægt sér. Það náðist því miður þó ekki á mynd. Það er magnað að komast í návígi við þessa tignarlegu skepnu sem sífellt er að festa sig betur í sessi í íslenskri náttúru. 

Fuglinn hefur étið ágætlega frá því fyrradag og Sara segir að miðað hvernig hún virðist vera að taka upp næringu ætti hún að ná sér. Í gær breiddi hún aðeins úr vængjunum og lyfti sér aðeins upp í búrinu. Sara vonast því til að geta sleppt henni aftur í náttúruna fljótlega eftir páska en uglan fannst í Leirársveit sem er skammt frá þar sem Hvalfjarðargöngin koma upp norðanmegin. Þar mun uglum hafa fjölgað töluvert á síðustu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert