Farið fram á lengra varðhald vegna kynferðisbrota

Maðurinn á meðal annars að hafa ítrekað ellt uppi ungan …
Maðurinn á meðal annars að hafa ítrekað ellt uppi ungan dreng þrátt fyrir nálgunarbann. mbl.is/Hari

Aðalmeðferð í máli manns sem ákærður er fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum drengjum hefst á föstudag. Gæsluvarðhald yfir manninum lýkur á morgun en farið verður fram á að því að verði framlengt um fjórar vikur.

Alls hafa verið lagðar fram tvær ákærur gegn manninum. Samkvæmt Óla Inga Ólasyni, saksóknara hjá embætti Ríkissaksóknara, er stefnt að því að klára aðalmeðferð málanna í þessum mánuði. Hann segir jafnframt að um er að ræða mikinn fjölda vitna sem getur haft áhrif á hvenær málinu ljúki.

Tveir brotaþolar og fleiri ákæruliðir

Í öðru málinu er maðurinn ákærður fyrir að hafa nauðgað 18 ára dreng dögum saman, þann 6. - 11. janúar á þessu ári, á dvalarstað ákærða og á gistiheimili. Farið er fram á að maðurinn sæti refsingu, greiði allan sakarkostnað og brotaþola sex milljónir króna í miskabætur.

Hitt málið snýr að broti gegn hegningarlögum og barnaverndarlögum, en ákæran er í fimm liðum. Maðurinn er sagður hafa tælt dreng með fíkniefnum, lyfjum, gjöfum, peningum, tóbaki og farsíma frá því að brotaþoli var 15 ára gamall þar til hann var 17 ára. Þá er talið að maðurinn hafi meðal annars átt samræði við drenginn og tekið af honum klámfengnar ljósmyndir og hreyfimyndir. Einnig braut maðurinn ítrekað gegn nálgunarbanni.

Í seinni ákærunni er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar, ásamt þriggja milljóna króna í miskabætur til brotaþola.

mbl.is