Telja að setið sé um Rússland

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, á fundinum í dag.
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fullt var út að dyrum á hádegisfundi Varðbergs um utanríkisstefnu Rússlands, áhrif á norðurslóðum og stöðu Íslands sem fram fór í dag þar sem Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum og Rússlandi, flutti erindi. Þar kom meðal annars fram að viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja gegn Rússum hefðu ekki verið að hafa tilætluð áhrif og myndu ekki hafa þau. Meðal annars vegna þess að þau væru notuð heimafyrir af rússneskum stjórnvöldum í áróðursskyni.

Fjallaði Albert í því sambandi um stöðu mála innan Rússlands þar sem stefna stjórnvalda byggðist fyrst og fremst á mikilvægi áhrifasvæðisins og því að varðveita ríkisvaldið. Sagði hann Rússland ekki vera stórveldi í raun. Einkum og sér í lagi ekki efnahagslega. Nema þá aðeins svæðisbundið og að einhverju leyti í ljósi þeirrar staðreyndar að þeir byggju yfir kjarnorkuvopnum. Rússland stæði hins vegar veikum fótum efnahagslega.

„Hernaðaríhlutun Rússa í átökunum í Sýrlandi, sem hófst haustið 2015, hún réðist að miklu leyti af sýn Rússlandsstjórnar á alþjóðamálin og alþjóðakerfið og hvernig Vesturlönd, einkum Bandaríkin, reyndu að hafa yfirburðastöðu í alþjóðakerfinu og þá fyrst og fremst til þess að skáka Rússlandi,“ sagði Albert. Málið hafi í grunninn snúist um óánægju Rússa með ráðandi stöðu Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu og ítrekuð afskipti Vesturlanda af innanlandsmálum ríkja. Þannig hafi staðan séð við Rússum.

Afskiptin í Sýrlandi komu mörgum á óvart

Afskipti Rússa af stríðinu í Sýrlandi hafi komið mörgum á óvart. Talið var að rússneski herinn hefði ekki burði til þess að starfa svo langt frá heimalandinu. Hins vegar hafi Rússar sýnt að hann gæti það. Að vísu með takmörkuðum hætti. Akkilesarhæll rússneska hersins væri flutningageta. Engu að síður hafi þetta vakið athygli og styrkt stöðu Rússlands í Miðausturlöndum og ljóst væri að engin lausn yrði á málum í Sýrlandi án samþykki stjórnvalda í Moskvu. Þannig hefði það verið lengi.

Þetta hafi enn aukið á aðdáunina heimafyrir á Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Ljóst væri að rússnesk stjórnvöld væru reiðubúin að beita hervaldi í Sýrlandi án tillits til mannfalls sem væri eitthvað sem vestrænar ríkisstjórnir ættu miklu erfiðara með. Rússland hefði hins vegar enga burði til þess að verða arftaki Sovétríkjanna.

Þrátt fyrir það væri Rússlandi lýst í nýrri þjóðaröryggisstefnu bandarískra stjórnvalda sem helsta andstæðingi Bandaríkjanna ásamt Kína. Ráðamenn í Moskvu litu hins vegar í stuttu máli svo á að stefna Bandaríkjamanna væri að skáka Rússlandi, einangra landið, veikja það efnahagslega og ná hernaðarlegum yfirburðum gagnvart því og þá væri reynt að skapa óánægju á meðal Rússa með rússnesk stjórnvöld í því augnamiði að koma þeim frá völdum og kom í þeirra stað til valda aðila sér hliðholla.

Valdhafarnir virtust þannig raunverulega trúa því að setið væri um Rússland og áhrifasvæði þess. Hættan kæmi fyrst og fremst utan frá. Þannig töluðu þeir í eigin hópi. Þetta væri ekki bara áróður. „Þeir trúa þessu sjálfir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert