Ekki gaman að vera grasstrá í Vatnajökulsþjóðgarði

Einstakt samspil elds og íss er að finna innan Vatnajöklsþjóðgarðs. …
Einstakt samspil elds og íss er að finna innan Vatnajöklsþjóðgarðs. Hér gefur að líta gos í Grímsvötnum. mbl.is/RAX

Hvað er það sem gerir Vatnajökulsþjóðgarð svo einstakan, svo fágætan, svo merkilegan, að ríkisstjórn Íslands ákvað að tilnefna hann á heimsminjaskrá UNESCO en á þá skrá fer ekkert nema að það njóti algjörrar sérstöðu á heimsvísu?

Svarið er margþætt en meðal annars það að hvergi á jarðríki, utan Suðurskautslandsins, má finna sjö virkar eldstöðvar undir einum og sama hveljöklinum og sköpunarverkin sem orðið hafa til í þessu samspili elds og íss eru fjölmörg, fjölbreytt og ekki á hverju strái hér á jörð.

Og talandi um strá: „Við getum sagt að það sé ekki gaman að vera grasstrá í Vatnajökulsþjóðgarði,“ segir Snorri Baldursson, líffræðingur sem ritstýrði tilnefningarskýrslunni sem nú hefur verið send UNESCO. „Það getur átt von á jökulhlaupi, öskugosi, því að skriðjökull valti yfir það eða hraun. En það er einmitt þetta sem er svo sérstakt við þjóðgarðinn; þar verða sífelldar breytingar.“  

Snorri var meðal þeirra sem fluttu erindi á málþinginu Máttur víðernanna sem Eldvötn – náttúruverndarsamtök í Skaftárhreppi  héldu á Kirkjubæjarklaustri á sumardaginn fyrsta. Í erindi sínu fór Snorri yfir tilnefningarferlið og útskýrði á hvaða forsendum Ísland vill koma Vatnajökulsþjóðgarði, Herðubreiðarlindum og Lónsöræfum á skrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, yfir merkar heimsminjar. Um fimmtíu manns komu að tilnefningarvinnunni með einum eða öðrum hætti.

Snorri Baldursson, líffræðingur og rithöfundur, ritstýrði tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá …
Snorri Baldursson, líffræðingur og rithöfundur, ritstýrði tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Heimsminjasamningur Sameinuðu þjóðanna um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins var gerður árið 1972. Nánast öll ríki veraldar eða 190 eiga aðild að samningnum í dag. Í honum heita aðildarríkin því að standa vörð um menningu heimsins, vernda heimsminjar og sporna gegn eyðingu þeirra. Ísland staðfesti samninginn árið 1995.

Í samningnum segir m.a.: Minjar okkar eru í senn arfur okkar úr fortíðinni, það sem við höfum í dag og það sem við skilum til komandi kynslóða. Menningar- og náttúruarfur mannkyns er ómetanleg uppspretta lífshamingju og hvatningar.

  „Það sem gerir þessar heimsminjar svo einstakar er að þær eru sameign mannkyns óháð staðsetningu,“ sagði Snorri í erindi sínu á málþinginu.

Mun færri náttúruminjar

Í dag eru 1073 heimsminjar á skrá UNESCO, bæði náttúru- og menningarminjar. Menningarminjar eru mun fleiri eða 832 talsins en náttúruminjarnar rétt rúmlega 200. Flestar minjarnar er að finna í Evrópu. „Við getum sagt að [heimsminjaskráin sé] í raun æðsta stig friðunar,“ sagði Snorri.

Fylgst er með hvernig þjóðríki vernda og viðhalda minjunum þegar þær eru komnar á skrána og dæmi eru um að staðir hafi verið afskráðir ef ákvæðum um verndun er ekki framfylgt.

Á Íslandi eru nú þegar tveir staðir á heimsminjaskrá: Þingvellir frá árinu 2004 vegna menningar og Surtsey frá árinu 2008 vegna náttúrunnar.

Ferlið við að koma svæði á heimsminjaskrá tekur gjarnan 3-4 ár að lágmarki ef allt gengur að óskum.

Í Gjálpargosinu í Vatnajökli árið 1996 var með einstökum hætti …
Í Gjálpargosinu í Vatnajökli árið 1996 var með einstökum hætti hægt að fylgjast með myndun móbergshryggs. Hryggurinn varð um sjö kílómetra langur og er nú kominn undir ís. mbl.is/RAX

Hvað Vatnajökulsþjóðgarð varðar er ferlið þegar nokkuð á veg komið. Árið 2016 var svæðið afmarkað og rætt við hlutaðeigandi sveitarstjórnir. Það sama ár tók ríkisstjórnin ákvörðun um að tilnefna þjóðgarðinn á heimsminjaskrá.

Ákvörðun næsta sumar

Í ársbyrjun 2017 hófst vinna við tilnefninguna. Þá um haustið voru drög að tilnefningunni send skrifstofu UNESCO og endanlegri skýrslu var svo skilað 1. febrúar í ár.

Það sem gerist í framhaldinu er að Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn tekur skýrsluna um tilnefninguna til rýnis og næsta haust er von á sendinefnd á vegum sjóðsins hingað til lands og mun hún taka út svæðið. Þessi sendinefnd mun svo skila áliti sínu til heimsminjanefndarinnar sem mun um mitt ár 2019  taka ákvörðun um hvort þjóðgarðurinn verði settur á heimsminjaskrána. Þrennt kemur til greina í því efni: Nefndin getur beðið um frekari gögn og þar með frestað ákvörðun sinni, hún getur hafnað tilnefningunni eða samþykkt hana.

Tvö önnur svæði fylgja

Svæðið sem tilnefnt er spannar 14% Íslands. Allur Vatnajökulsþjóðgarður er tilnefndur en að auki Herðubreiðarlindir og hluti Lónsöræfa. „Ákveðið var að tilnefna Herðubreiðarlindir vegna Herðubreiðar,“ sagði Snorri, „því hún er klassískt dæmi um móbergsstapa.“ Lónsöræfin voru svo tilnefnd því „þar getum við séð inn í fornar eldstöðvar.“

Heimsminjastaðir verða að hafa ótvírætt gildi á heimsvísu og vera einstakir, sagði Snorri. Heimsminjanefndin hefur fjögur viðmið að leiðarljósi við val á náttúruminjum og þurfa staðir að uppfylla að minnsta kosti eitt þeirra. Eftir að staður er svo kominn á heimsminjaskrá þarf að uppfylla kröfur um vernd og stjórnun og fram á það þarf að sýna í tilnefningunni.

Áhersla á jarðfræðina

Við tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs var lögð áhersla á það viðmið er snýr að jarðfræði og jarðeðlisfræði. Samkvæmt því þarf á staðnum að fyrirfinnast dæmi um þróun jarðar, virka jarðfræðilega ferla eða merkar afurðir jarðfræðiferla.

Lakagígar, gígaröðin vestan við Laka. Í fjarska sést yfir fjalllendið …
Lakagígar, gígaröðin vestan við Laka. Í fjarska sést yfir fjalllendið norður af Mýrdalsjökli. mbl.is/Gísli Sigurðsson

Snorri fór í stuttu máli yfir jarðsögu Íslands og útskýrði að eftir endilöngu Atlantshafi lægi gríðarmikill úthafshryggur, Mið-Atlantshafshryggurinn. Hann er yfirleitt á 1000-2000 metra dýpi nema á Íslandi „þar sem hann rekur kryppuna upp úr sjónum“. Það er vegna þess að undir hryggnum við Ísland er að finna svokallaðan möttulstrók sem færir heita kviku til yfirborðsins og ýtir hryggnum upp úr hafinu.

„Það er alveg einstakt á þessum tímapunkti í jarðsögunni að úthafshryggur eða flekaskil fari saman við möttulstrók,“ sagði Snorri og bætti við: „Og það sem gerir þetta ennþá einstakara er að ofan á þessu samspili möttulstróks og úthafshryggjar er stór hveljökull. Þannig að við fáum hið gríðarlega magnaða samspil elds og íss. Við fáum eldvirkni undir jökli en líka eldvirkni utan jökuls. Svo erum við með veðrun vatns og vinds og á alla þessa ferla er lögð áhersla í tilnefningunni.“

Sjö virkar eldstöðvar

Tveir staðir í heiminum þar sem finna má ákveðið samspil elds og íss eru nú þegar á heimsminjaskrá. Og má því spyrja, hvað er svona sérstakt við Vatnajökulsþjóðgarð? Jú, það er eldvirknin undir hinum stóra hveljökli svokallaða, Vatnajökli, en slíkur jökull verður til þegar margir staðbundnir jöklar vaxa saman með tímanum í víðáttumiklu fjallendi.

„Það eru sjö virkar eldstöðvar undir Vatnajökli,“ benti Snorri á. „Og hvergi annars staðar í heiminum má finna svo margar virkar eldstöðvar undir svo stórum hveljökli nema á Suðurskautslandinu.“ Það svæði er þó óaðgengilegt og ummerki þessara krafta ekki sýnileg þar sem þau eru að verki undir ísnum.

Og afurðir þessa einstaka samspils elds og íss er að finna víða á Íslandi. Að því leytinu sker Vatnajökulsþjóðgarður sig algjörlega úr á heimsvísu, sagði Snorri. „Það eru að finna hér svo fjölbreyttar minjar um þetta samspil.“

Móbergið gamla og góða

Þegar eldgos verður undir jökli verður til bergtegundin móberg og svokallaðir móbergsstapar, eins og Herðubreið, geta myndast. Það er ástæða þess að Herðubreiðarlindir voru hafðar með í tilnefningunni. Þó að móberg virðist  hversdagslegt í hugum Íslendinga er það mjög sjaldgæft annars staðar í heiminum. „Við skulum muna það næst þegar við sjáum móbergsfjöllin okkar að þau eru einstök fyrirbæri á heimsvísu,“ sagði Snorri.

Í Vatnajökulsþjóðgarði er einnig að finna gígaraðir og móbergshryggi. „Þetta eru líka algjörlega einstök fyrirbæri. Hvergi annars staðar í heiminum má finna  svona magnaða móbergshryggi.“

Víti og Öskjuvatn. Askja er friðlýst, en undir henni er …
Víti og Öskjuvatn. Askja er friðlýst, en undir henni er mikið háhitasvæði. Öskjuvatn myndaðist árið 1875. mbl.is/RAX

Nefndi hann að í Gjálpargosinu árið 1996 hafi skapast sögulegt tækifæri til að fylgjast með myndun móbergshryggja. Sá hryggur, sem er um sjö kílómetra langur, er nú á kafi í ís.

Jökulsandar og gígaraðir

Gígaraðirnar sem finna má innan garðsins eru t.d. Lakagígar sem er best varðveitta gígaröð heims. Slíkar raðir myndast við gos utan jökuls þar sem mörg gosop myndast. Einnig er að finna dæmi um dyngjur innan garðsins en þær verða til er eitt gosop myndast í slíku eldgosi. Dæmi um slíkt er Trölladyngja. Þá hafa orðið basaltflæðigos hér á landi sem eru sjaldgæf. „Á svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs hafa orðið nokkur af stærstu hraungosum veraldar á síðustu þúsund til tvö þúsund árum,“ sagði Snorri en þar átti hann við Eldgjárhraunið, Skaftáreldahraun og Holuhraun.

„Það sem er svo magnað í Vatnajökulsþjóðgarði er að við getum borið saman þessi fyrirbæri nánast hlið við hlið. Við höfum Herðubreið og Trölladyngju, Lakagígaröðina og Kambana. Sambærileg fyrirbæri sem urðu ýmist til undir jökli eða undir berum himni.“

Herðubreið er móbergsstapi með hraunhettu og því allsérstæð á heimsvísu.
Herðubreið er móbergsstapi með hraunhettu og því allsérstæð á heimsvísu. mbl.is/RAX

Öll þessi gos undir jökli geta svo myndað hamfaraflóð og þau hafa nokkur orðið, m.a. þau sem mynduðu Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur. „Þá höfum við þessa virku jökulsanda sem eru ákaflega sjaldgæfir,“ sagði Snorri, „ef þeir finnast yfir höfuð annars staðar utan Íslands.“

Þó að Vatnajökulsþjóðgarður sé ekki tilefndur vegna landslags og náttúrufegurðar, sem þó er hægt að gera, er slíkt vissulega að finna innan hans. „Við höfum auðvitað þessa gríðarlega fallegu og stórbrotnu náttúru innan þjóðgarðsins,“ sagði Snorri. „Lakagígar, Víti og Öskjuvatn, fagrir litir háhitasvæðanna, svo dæmi séu tekin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert