Frumvarp um þjóðgarð á miðhálendinu lagt fram í vor

Hveradalir við Kerlingarfjöll verða hluti af þjóðgarði á miðhálendinu, verði …
Hveradalir við Kerlingarfjöll verða hluti af þjóðgarði á miðhálendinu, verði frumvarp umhverfisráðherra að lögum, en hann hyggst leggja það fram á vorþingi. mbl.is/RAX

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hyggst í vor leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Áformin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Kveðið er á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þverpólitísk nefnd um stofnun hans hefur verið að störfum síðan vorið 2018. Í henni er unnið að áherslum sem frumvarpið mun byggja á og þar eiga sæti fulltrúar allra flokka á Alþingi auk tveggja fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. 

Nefndinni var m.a. ætlað að skilgreina mörk þjóðgarðsins, setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka, gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlun og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn, taka afstöðu til stjórnskipulags hans, fjalla um svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf.

Nefndin hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda hugmyndir að einstökum þáttum sem hún hefur fjallað um. Síðustu tvö áhersluatriði nefndarinnar voru kynnt í samráðsgátt í október, annars vegar umfjöllun um fjármögnun og hins vegar áherslur í lagafrumvarpi. Þá hefur nefndin staðið fyrir kynningarfundum og fundaröðum með sveitarstjórnum og hagaðilum.

Áformin um frumvarpið hafa sem fyrr segir nú verið sett í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Frestur til að skila umsögn er til og með 4. desember. Drög að frumvarpi um þjóðgarðinn munu einnig verða kynnt í samráðsgátt.

mbl.is