Ferðamaður hreiðraði um sig í torfkofa

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á Suðurnesjum hafði nýverið afskipti af erlendum ferðamanni sem var búinn að hreiðra um sig í gömlum torfkofa við rústir gömlu byggðarinnar í Hópsnesi. Þar hafði hann komið fyrir pjönkum sínum sem samanstóðu af svefnpoka og bakpoka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Hún segir ennfremur, að maðurinn hafi sagt að hann væri búinn að dvelja hér á landi í um þrjá mánuði og sagðist ekki hafa efni á öðrum gististað. Honum var vinsamlegast bent á að hann gæti ekki hafst við í kofanum og þyrfti að gera eitthvað í sínum málum að sögn lögreglu.

Lögregla mun fylgjast með því að maðurinn fari að fyrirmælum og yfirgefi torfkofann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert