Ítrekað bent á þörf fyrir aukna mönnun

Landhelgisgæslan er í dag með eina þyrluáhöfn næstum því 100% …
Landhelgisgæslan er í dag með eina þyrluáhöfn næstum því 100% tímans, en aðra áhöfn ekki nema 50% tímans. mbl.is/Árni Sæberg

Forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar hafa ítrekað bent á að auka þurfi mönnun á þyrlum Gæslunnar. Þetta segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni. Greint var frá því í gær að þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar hafi ekki geta sinnt út­kalli vegna tveggja ferðamanna sem lentu í Þing­valla­vatni á sunnudag vegna þess að vakt­haf­andi þyrlu­sveit upp­fyllti ekki kröf­ur um lág­marks­hvíld og því hafi ekki hægt að kalla þyrluna út.

„Við getum í dag boðið upp á það að vera með eina áhöfn næstum því 100% tímans, en aðra áhöfn ekki nema 50% tímans yfir árið,“ segir Ásgrímur. „Þarna hittir síðan þannig á að það var bara ein áhöfn og vegna útkalls sem hún hafði verið send í kvöldið áður og svo þessa útkalls um morguninn komu alþjóðlegar reglur um um hvíldarákvæði í veg fyrir að hægt væri að senda þyrluna á Þingvelli.“

Óvenjumikið var að gera hjá Lögreglunni á Suðurlandi um hvítasunnuhelgina og dagana á undan og mikl­ar ann­ir höfðu sömuleiðis verið hjá þyrlu­sveit­inni.

Spurður hvort einhvern tímann sé rætt um það innan Landhelgisgæslunnar að brjóta, ef nauðsyn beri til, á reglum um hvíldartíma segir Ásgrímur svo ekki vera.  

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is í morgun að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi reynst lögreglunni á Suðurlandi afar verðmætt tæki í mörgum málum og að hún hafi skipt sköpum í mörgum björgunaraðgerðum. Ásgrímur tekur í sama streng.

10 mínútur austur fyrir fjall

„Opinberlega er viðbragðstími á þyrlum Landhelgisgæslunnar klukkutími. Það er frá því að boð berst til Landhelgisgæslunnar um þyrlu og þar til hún er farin í loftið,“ segir hann. „Hins vegar er meðalviðbragðstíminn innan við hálftími og við stefnum alltaf á að hafa hann sem stystan.“ Þegar aðstæður leyfi geti þyrlan þannig verið kominn á tíu mínútum austur fyrir fjall og á innan við hálftíma á Hvolsvöll og í nágrenni Víkur.

Ásgrímur segir mönnun þyrlunnar hafa verið rædda við Dómsmálaráðuneytið í gegnum tíðina og að vonir standi til þess að fjármagn fáist á næsta ári til þess að bæta við einni vakt. „Þá gætum við verið með tvær vaktir um 90% ársins,“ segir hann.

Hjá Landhelgisgæslunni reiknist mönnum til að kostnaðurinn við það sé um 250-300 milljónir á ársgrundvelli. „Þetta eru ekki bara vegna launa,“ útskýrir Ásgrímur. Kostnaðurinn sé líka til kominn vegna flugtíma. „Það þarf að sjá til þess að hver áhafnarmeðlimur fljúgi 200 tíma á ári til að viðhalda æfingu og réttindum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert