Asbest gæti hafa borist með skófatnaði

Vinna var stöðvuð á Grenásvegi 12 fyrr í maí vegna …
Vinna var stöðvuð á Grenásvegi 12 fyrr í maí vegna niðurrifs á asbesti. mbl.is/Árni Sæberg

Vinnueftirlitið lokaði bygg­ing­ar­vinnustaðnum við Grens­ás­veg 12 þann 9. maí síðastliðinn og öll vinna var bönnuð á verkstað eft­ir að í ljós kom að asbest hafði verið fjar­lægt úr hús­inu án þess að sótt hefði verið um til­skil­in leyfi og viðeig­andi búnaður væri til staðar. Var lífi og heil­brigði starfs­manna tal­in hætta búin af asbest­meng­un. Vinnustaðurinn var þó opnaður aftur í síðustu viku eftir að verktaki með réttindi og leyfi tók að sér verkið.

Í ljósi þess hve asbest er hættulegt efni þarf bæði leyfi frá Vinnueftirlitinu og heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags áður en ráðist er í niðurrif. Þar sem ekki var til staðar leyfi á Grensásvegi 12 áður en hafist var handa gerði Vinnueftirlitið Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur viðvart.

„Við förum á vettvang og skoðum ummerki, hvort það sé umhverfismengunarhætta, en í þessu tilviki var niðurstaðan sú að það væri ekki hætta fyrir almenning. Það var eitthvað á vinnupöllum, inni í húsinu og eitthvað órifið,“ segir Ásgeir Björnsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is. Hann fór sjálfur á staðinn þegar tilkynningin barst.

Ekki útilokað að asbest geti borist með skófatnaði

Þrátt fyrir að ekki hafi verið talin umhverfismengunarhætta er að sögn Ásgeirs ekki útlokað að asbest hafi borist af vinnustaðnum með starfsmönnum. „Það er fræðilegur möguleiki að asbest geti borist með skófatnaði, en þegar ég fór á vettvang í kjölfar kvörtunarinnar þá sá ég ekki asbestleifar fyrir utan vinnupallana.“

Ásgeir segir það alls ekki gott að asbest sé rifið niður án hlífðarbúnaðar. „Það er ekki gott að vera í snertingu við asbest, en það tekur langan tíma fyrir asbestið að hafa sín áhrif. Það líða oft 20 til 40 ár áður en eitthvað kemur í ljós. En það er misjafnt hvað fólk þolir. Ef menn reykja líka þá er það samverkandi þáttur.“

Þegar heilbrigðiseftirlitið kemur að máli sem þessu er því beint til verktaka sem hafa réttindi að sækja um leyfi hjá Vinnueftirlitinu og í kjölfarið hjá heilbrigðiseftirlitinu. „Við fylgjumst með mengunarhlutanum. Það þarf að fylgja ákveðnu verklagi sem verktaki þarf að fara yfir með Vinnueftirlitinu og er sérstaklega til að vernda starfsfólk. Þetta starfsfólk þarf að hafa sótt námskeið hjá eftirlitinu og hafa farið í læknisskoðun.“

Aðspurður segir Ásgeir það koma fyrir að asbest sé rifið niður án leyfis, það sé þó undantekning en ekki reglan. Í þeim tilfellum telur hann frekar um vanþekkingu að ræða heldur en ásetning í þeim tilgangi að komast hjá aukinni vinnu.

Reykjavíkurborg kaupir 24 íbúðir í húsinu 

Verið er að breyta hús­næðinu við Grens­ás­vegi 12 úr at­vinnu­hús­næði í íbúðar­hús­næði, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem vinnustaðnum er lokað vegna þess að aðbúnaður, holl­ustu­hætt­ir og ör­yggi starfs­manna er ekki í sam­ræmi við lög. Þann 16. nóv­em­ber síðastliðinn var bann lagt við allri vinnu á staðnum vegna at­huga­semda eft­ir­lits­manns Vinnu­eft­ir­lits­ins við ör­yggi og aðbúnað. Þá hafði eft­ir­lit­inu ekki verið til­kynnt um verkið, sem er grund­vall­ar­atriði þegar unnið er að bygg­ingu stærri mann­virkja. Einnig kom í ljós við skoðun Samiðnar, sam­bands iðnfé­laga, und­ir lok síðasta árs, að kjör starfs­manna sem störfuðu á vinnustaðnum voru und­ir lág­marks­laun­um og ekki var til staðar bygg­ing­ar­leyfi fyr­ir fram­kvæmd­un­um.

Reykjavíkurborg hefur gert samning um kaup á 24 íbúðum í húsinu og til stóð að þær yrðu afhentar 1. apríl síðastliðinn. Í svari frá Reykjavíkurborg til mbl.is segir að samningurinn hafi verið framlengdur til 1. ágúst. Þar segir jafnframt að starfsfólk skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá borginni hafi reglulega átt fundi með verktakanum og hafi verið kunnugt um vinnustöðvun vegna asbestmengunar. Það sé hins vegar á ábyrgð verktakans að afla tilskilinna leyfa. Verk­taka­fyr­ir­tækið Hraun­brekka ehf. ber ábyrgð á verk­inu.

Líkt og áður sagði er asbest mjög hættulegt, en það getur valdið fleiðurþekjukrabbameini sem dregur fólk nær undantekningalaust til dauða. Meðgöngutími þess er um 10 til 40 ár.

Allsherjarbann var lagt við notk­un asbests á Evr­ópska efna­hags­svæðinu 1. janú­ar 2005. Því þarf sér­stakt leyfi og ákveðna kunn­áttu til að meðhöndla það.

Meng­un­ar­mörk fyr­ir asbest eru mjög lág eða aðeins 0,1 asbestþráður í rúm­senti­metra en jafn­vel þó að meng­un mæl­ist und­ir mörk­um á asbest­vinnustað þarf samt sem áður að klæðast viðeig­andi hlífðarbúnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert