Margar ljósmæður láta af störfum

Fyrsta júlí næstkomandi mun 21 ljósmóðir hafa látið af störfum vegna yfirstandandi kjaradeilu þeirra við ríkið. „Við reynum að vera bjartsýn, en þessi barátta hefur verið mjög löng og erfið,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, við mbl.is.

Vinnufundur samninganefnda ljósmæðra og ríkisins hófst í dag klukkan eitt og stendur til að halda formlegan samningafund á morgun. Blaðamaður náði Katrínu af tali fyrir fundinn í dag og þá sagði hún „við erum allar með fingur í kross og mætum jákvæðar á alla fundi.“

Ljósmæður hafa margar hverjar sagt upp störfum sínum í mótmælaskyni og uppsagnarfrestur margra líða undir lok á næstu misserum. Katrín segist geta staðfest að ein ljósmóðir hafi látið af störfum mánaðarmótin apríl-maí, ein mánaðarmótin maí-júní og stendur til að 19 ljósmæður láta af störfum mánaðarmótin júní-júlí. Þá bætist við að helmingur ljósmæðra hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands láti af störfum 1. september.

„Við höfum ekkert í hendi og vitum ekki hvort samningur verður gerður áður en þær [ljósmæður sem hafa sagt upp] láta af störfum,“ segir formaðurinn.

Breytt viðmót

Katrín hefur áður nefnt við mbl.is að henni hafi fundist samninganefnd ríkisins hafa ekki nægilegt umboð til þess að leysa deiluna og að fundir samninganefndanna hafi verið „einhver sýndarleikur.“

Spurð um umboð samninganefndar ríkisins að svo stöddu segir Katrín að „manni finnst það hafa breyst.“ Fram kemur í máli hennar að viðmót samninganefndar hafi, að hennar mati, farið að breytast í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sagði nauðsynlegt að nálgast málið með öðrum hætti. „Mér finnst nálgun þeirra [samninganefndar ríkisins] meira lausnarmiðað, en eins og ég segi þá höfum við ekkert í hendi,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert