Afþreying á Íslandi fær 8,53

Ferðamenn vilja sérstaklega bera íslenska náttúru augum. Skógafoss er vinsæll …
Ferðamenn vilja sérstaklega bera íslenska náttúru augum. Skógafoss er vinsæll áfangastaður. mbl.is/RAX

Ný gögn úr landamærarannsókn Ferðamálastofu, sem framkvæmd er meðal ferðamanna sem koma til Íslands, sýna að ferðamenn gefa hestaferðum hæstu einkunn meðal afþreyingar sem þeir sækja, en norðurljósaskoðun fær lægstu einkunn. Gögnin staðfesta líka mikla árstíðarsveiflu í komu ferðamanna í ákveðna landshluta.

Afþreying á Íslandi fær meðaleinkunnina 8,53 af 10 af ferðamönnum sem hingað koma. Hestaferðir hljóta hæstu einkunnina eða rúmlega 9, á meðan norðurljósaferðir fá lægstu einkunn allra afþreyingarmöguleika eða 7,7.

Sveiflur eftir landshlutum

Höfuðborgarsvæðið fær svipað hlutfall ferðamanna allt árið, á bilinu 93-95%. Suðurland er með heldur meiri sveiflur eftir árstíðum, en að sumri fóru 85% ferðamanna þangað í ágúst í fyrra á meðan hlutfallið fellur í 61% yfir vetrartímann. Rétt innan við 60% ferðamanna skoða Reykjanesið allt árið.

Veturinn getur reynst ferðamönnum erfiður.
Veturinn getur reynst ferðamönnum erfiður. mbl.is/​Hari

Þá eru miklar sveiflur á Vesturlandi, Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. 20% prósent ferðamanna heimsóttu Vestfirði í júlí 2017, en þetta féll í 2% í febrúar. Sama saga er af Norðurlandi þar sem 53% ferðamanna litu við fyrir norðan í ágúst en aðeins 9,3% í janúar.

90% svarenda í könnun ferðamálastofu segja að einstök náttúrufyrirbæri ástæðu þess að ákveðið var að koma til Íslands, sem gefur til kynna að náttúran er enn meginaðdráttarafl landsins. Þá nefna 70% svarenda íslenska menningu.

Ferðamenn óánægðir með fjölda ferðamanna

Ferðamenn sem hingað koma virðast í rannsókninni vera almennt sáttir við ferðamannastaði. Þá fá öryggisþættir einkunnina 8,8 sem og almennt ástand ferðamannastaða. Þá eru þættir eins og hegðun og umgengni, aðgengi, merkingar og upplýsingar, skipulag og hreinlætisaðstöður allir með 8,1 eða meira í einkunn. Lægsta einkunn fá ferðamannastaðir Íslands fyrir fjölda ferðamanna á stöðunum, eða 7,3.

Það vekur athygli að ferðamenn sem eru 65 ára og eldri virðast ánægðastir með dvöl sína segist ólíklegastur til þess að koma aftur til landsins, en 64,4% af þessum hópi segja líkur á að hann heimsæki landið aftur.

82,1% ferðamanna á aldrinum 15-24 ára segjast vilja heimsækja Ísland að nýju en jafnframt segist þessi hópur óánægðastur með dvöl sína hér á landi.

Niðurstöður landamærarannsóknar Ferðamálastofu má finna í mælaborði ferðaþjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert