Kennarar samþykkja kjarasamning

Grunnskólanemar við nám. Mynd úr safni.
Grunnskólanemar við nám. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara hefur samþykkt nýjan kjarasamning í allsherjaratkvæðagreiðslu með 74% atkvæða.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir þetta skýr skilaboð um að samningamenn bretti upp ermarnar. „Þetta er skýr niðurstaða um að þetta samtal sé nauðsynlegt og að við þurfum að fara af fullum þunga inn í það næsta haust,“ segir hún. „Annars vegar í okkar baklandi og svo hins vegar við stóra borðið.“

Fram undan sé vinna við raunverulega leiðréttingu á kjörum kennara.

Á kjörskrá voru 4.689 og atkvæði greiddu 3.423 eða 73%.  Já sögu 2.533, eða 74%, og nei sögðu 837 eða 24,45%, en auðir seðlar voru 53 eða 1,55%.

Rétt að byrja baráttuna

Þorgerður segist finna fyrir auðmýkt og  þakklæti til allra þeirra félagsmanna sem gáfu sér tíma á annasömum tíma til að skoða samninginn. „Svo þurfum við bara að bretta upp ermarnar og halda áfram,“ segir hún. „Því við erum bara rétt að byrja baráttuna um réttlát kjör fyrir grunnskólakennara og kennara í landinu.“

Skrifað var undir kjarasamninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara 25. maí síðastliðinn. Félag grunnskólakennara hafði þá verið án kjarasamnings síðan í desember á síðasta ári en nýi samningurinn gildir frá 1. desember 2017 til 30. júní 2019. 

Kjara­samn­ing­urinn fel­ur meðal ann­ars í sér 150 þúsund króna ein­greiðslu 1. júlí, 4,1% launa­hækk­un 1. júní, vinnu­matið fell­ur út og tími til und­ir­bún­ings er auk­inn.

Þá bætist launa­flokk­ur við eft­ir 20 ár í kennslu (eða við 50 ára ald­ur hjá þeim sem taka laun eft­ir líf­aldri) frá og með 1. ág­úst 2018. Jafn­framt er mennt­un­ar­kafli óbreytt­ur frá samn­ingi sem bor­inn var und­ir fé­lags­menn í mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert