Nemar lítið sóst eftir framleigu

Aðeins nemendur við Háskóla Íslands sem hafa farið í skiptinám …
Aðeins nemendur við Háskóla Íslands sem hafa farið í skiptinám erlendis hafa mátt framleigja húsnæði sitt. mbl.is/Ómar

Hingað til hefur nemendum við Háskóla Íslands verið óheimilt að framleigja húsnæði sitt á stúdentagörðum nema þegar þeir hafa farið í skiptinám erlendis.

Því hefur nú verið breytt með ákvörðun Félagsstofnunar stúdenta, að frumkvæði Stúdentaráðs. Í haust verður svo metið hvernig til tókst.

Ef fólk velur að framleiga íbúðina sína dregst tíminn sem er í framleigu frá þeim tíma sem því er heimilt að búa á stúdentagörðunum.

Að sögn Rebekku Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Félagsstofnunar stúdenta, hafa þau ekki orðið vör við að fólk hafi mikið verið að sækjast eftir því að framleigja húsnæðið sitt en stúdentaráð hafi engu að síður óskað eftir þessu.

Rebekka bendir á að vetrarleiga sé í boði á Gamla-Garði. Þar geti nemendur sótt um að dvelja í níu mánuði og sleppt sumrinu. Á sumrin er þar rekið hostel. Vetrarleiga var einnig í boði í stúdentaíbúðum í  Skerjagarði en horfið var frá því vegna þess hve fáir sóttust eftir níu mánaða leigu.

Alls eru leigusamningar vegna stúdentaíbúða um 1.200 talsins. Hægt verður að framleigja allar íbúðir í sumar nema herbergi þar sem deilt er sameiginlegu eldhúsi og setustofu. Það húsnæði er í Oddagörðum og á Ásgörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert