Frænka henti fornum munum

Arró Stefánssyni var illa brugðið er hann uppgötvaði að safngripir …
Arró Stefánssyni var illa brugðið er hann uppgötvaði að safngripir hans höfðu endað í Sorpu. mbl.is/Arnþór

Eigandi fornra gripa sem bárust Þjóðminjasafni Íslands frá Nytjamarkaði Góða hirðisins á dögunum virðist fundinn. Leikstjórinn Arró Stefánsson greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að gripirnir séu í hans eigu og að frænka hans hafi hent þeim óafvitandi.

„Hún var bara að tæma geymslu og bara fleygði þessu, hún tók ekkert eftir því hvað þetta var eða neitt, hún var bara að henda út einhverjum fötum og dóti og þetta bara flaug með,“ segir Arró í samtali við blaðamann mbl.is.

Fjallað var um munina í Morgunblaðinu á laugardag, en þeir bárust á gámastöðina við Dalveg í Kópavogi í plastkassa, vafðir inn í salernispappír. Um er að ræða odda af örvum og spjótum, sveigðar járnþynnur, glerbrot úr lyfjaglösum, axarhöfuð og fleira, tugi gripa sem allir eru mjög fágætir.

Arró, sem er staddur í Tævan þessa dagana, segist hafa vaknað síðasta sunnudagsmorgun við stöðug læti í símanum sínum þar sem fjölskylda og vinir höfðu séð frétt Morgunblaðsins um munina.

Hann segir ótrúlegt og með ólíkindum að munir hans hafi komist heilir frá því að lenda í ruslinu og hefur sett sig í samband við Þjóðminjasafnið til að endurheimta þá.

„Ég er búinn að vera að safna forngripum frá því að ég var 11-12 ára gamall,“ segir Arró, en þeir munir sem bárust Þjóðminjasafninu frá Góða hirðinum eru einungis hluti af forngripasafni hans, en þó sá hluti safnsins sem hann heldur mest upp á.

„Þetta var það sem mig langaði minnst að myndi glatast,“ segir Arró, en áhugi hans á fornum munum kviknaði sökum áhuga á heimssögunni. Hann segist vilja geta snert söguna, í stað þess að lesa einungis um hana á blaði. Megnið af mununum hefur hann keypt á uppboðum á netinu og í ýmsum safnaraverslunum í Bandaríkjunum.

Arró segist nánast hafa fengið hjartaáfall og taugaáfall er hann sá að safngripum hans hafði verið hent, en er sem áður segir, ánægður með að það sé í lagi með munina.

Facebook-færslu Arrós má sjá hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert