Missa af Pearl Jam vegna raddleysis

Eiríkur og félagar á barnum.
Eiríkur og félagar á barnum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru mikil vonbrigði. Við erum hérna fjórir félagar að láta æskudrauminn rætast og gerðum okkur ferð til Lundúna til að sjá þessa æskuhljómsveit, allt til einskis,“ segir Eiríkur Sigmarsson en hann átti ásamt þremur vinum sínum miða á tónleika amerísku rokkhljómsveitarinnar Pearl Jam í O2-tónleikahöllinni í London í kvöld. Það vildi þó ekki betur til en að þeim var frestað þar sem söngvari sveitarinnar, Eddie Vedder, er raddlaus.

„Við ákváðum að mæta hingað tímanlega og fá okkur nokkra,“ segir Eiríkur. Þegar komið var á tónleikasvæðið hafi þeim verið tilkynnt af frestuninni. Pearl Jam var með aðra tónleika í London í gær en undir lok þeirra var Eddie Vedder orðinn nær raddlaus og því tekin ákvörðun um að fresta tónleikum dagsins.

Ekki grenjandi í hitanum

Eiríki og félögum gefst ekki kostur á að fá endurgreitt, en þeir fá miða á tónleika í júlí í staðinn. „Einhverjir okkar munu örugglega fara, en ég kemst ekki þar sem ég verð væntanlega á Tene að fá mér cerveza,“ segir Eiríkur léttur.

Aðspurður segist hann hafa verið Pearl Jam-aðdáandi lengi og það trufli hann ekki þótt hann sé of ungur til að hafa náð gullaldarskeiði hljómsveitarinnar. Sömu sögu sé að segja af Fannari vini hans, en með þeim í för eru tveir vinir sem ekki eru jafnheitir í trúnni.

Eiríkur segir þó að þeir muni gera gott úr ferðinni. „Núna sitjum við á hótelbarnum og erum að horfa á HM. Við erum ekkert að grenja enda að hella í okkur bjór hér í 25 gráða hita,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert