Bíða af sér veðrið í skálum

Skáli Ferðafélags Íslands í Þórsmörk.
Skáli Ferðafélags Íslands í Þórsmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Þeir skálar Ferðafélags Íslands sem búið er að opna á hálendinu eru vel flestir fullir og þar bíða nú ferðalangar af sér hvassviðrið sem gengur yfir. Engin vandamál hafa komið upp að sögn Stefáns Jökuls Jakobssonar, umsjónarmanns skála hjá FÍ. „Það er rok og rigning og mjög leiðinlegt veður. Veðrið hefur verið slæmt upp á Fimmvörðuhálsi og nú bíður fólk af sér veðrið í skálunum áður en það leggur af stað,“ segir Stefán Jökull í samtali við mbl.is um níuleytið í morgun. 

Skálar Ferðafélagsins í námunda við hinar vinsælu gönguleiðir Laugaveginn og um Fimmvörðuháls eru nú opnir og flestir fullbókaðir. Þar starfa skálaverðir og eru ferðafólki til leiðsagnar og aðstoðar. „Þeir eru að sinna sínu eftirlits- og eftirfylgnistarfi við þessar aðstæður,“ segir Stefán Jökull, „og reyna að halda aftur af fólki að leggja af stað að óþörfu.“

Skálarnir hafa nú verið opnir í viku og aðsóknin er góð. „Núna erum við að detta inn í það tímabil að flesta daga er nánast fullt. Eftir vikuna verður fullbókað í alla skála alla daga.“

Stefán Jökull segir flesta ferðamennina útlendinga og að flestir þeirra séu í skipulögðum ferðum og með leiðsögumann sér til halds og trausts. 

Og nú er staðan sú að ferðafólkið bíður af sér veðrið í skálunum og á tjaldsvæðunum við þá. Þess verður þó ekki langt að bíða að óhætt verði að leggja af stað í göngu á ný þar sem veðrið mun fara að ganga niður um hádegisbil og síðdegis ætti það að vera orðið skaplegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert