Byggja upp þol Vestmannaeyja-mjaldra

Tveir mjaldrar verða fluttir frá Sjanghæ til Eyja í marsmánuði, …
Tveir mjaldrar verða fluttir frá Sjanghæ til Eyja í marsmánuði, þar sem þeir munu hafast við í sjókvíum í Klettsvík. Mynd úr safni. AFP

Verið er að undirbúa tvo mjaldra í skemmtigarði í Sjanghæ fyrir ný heimkynni sín á Íslandi, en fram kemur í máli þeirra sem standa að flutningi mjaldranna að þeir verði fluttir í Klettsvík við Heimaey í mars á næsta ári.

Mjaldrarnir heita Litla-Hvít og Litla-Grá og fjallað er um væntanlegan flutning þeirra í myndskeiði frá Press Association, sem sjá má hér að neðan.

Elliði Vignisson fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum sagði við Morgunblaðið í byrjun maí að búið væri að semja um flutninginn á hvölunum frá Sjanghæ til Keflavíkur, en þaðan verða þeir fluttir land og sjóleiðina til Eyja.

Mjöldrunum verða með flutningnum til Klettsvíkur tryggðar aðstæður sem eru mun líkari náttúrulegum heimkynnum þeirra en steypukerin í skemmtigarðinum í Sjanghæ.

Svæðið í Klettsvík verður afgirt og þar munu hvalirnir hafa 32.000 fermetra svæði til að synda um. Báðir eru hvalirnir taldir ófærir um að bjarga sér úti í náttúrunni, þar sem þeir hafa verið svo lengi í skemmtigarði.

Fram kemur í myndskeiðinu að Litla-Hvít og Litla-Grá hafi verið í Ocean World í Sjanghæ frá árinu 2011, en talið er að þær geti lifað lifað í áratugi til viðbótar í Vestmannaeyjum, en mjaldrar ná 40-50 ára aldri.

Verið er að byggja upp þol hvalanna til að gera þeim kleift að takast á við nýjar aðstæður, að sögn Mark Todd, sérfræðings í atferli sjávarspendýra sem Press Association ræðir við.

„Við erum að skoða hversu hratt þær synda og hversu lengi í einu þær geta synt og líka hversu lengi þær geta haldið niður í sér andanum,“ segir Todd í myndskeiðinu um þessa verðandi Vestmannaeyinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert