Kjaraþróunin í takt við aðra BHM-hópa

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í viðtali við mbl.is að það sé rangt sem fram hafi komið að samninganefnd ríkisins hafi ekki umboð til þess að semja um kjör ljósmæðra. Hann segist eiga erfitt með að skilja það þegar hann er sakaður um „einhverja sérstaka óbilgirni“, en í dag birti fjármálaráðuneytið yfirlýsingu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.

Hann segir að það sé „langbest“ að umræðan fari fram á grundvelli staðreynda og segir að gögn um launaþróun ljósmæðra sýni að kjör þeirra hafi þróast með sambærilegum hætti og annarra hópa innan BHM, þótt reyndar hafi kjör ljósmæðra batnað sérstaklega umfram aðra á sínum tíma.

Það veldur Bjarna áhyggjum hve langt virðist á milli deiluaðila og einnig að heilbrigðisstéttir, hver á eftir annarri, grípi til afgerandi aðgerða til þess að knýja fram kjarabætur.

„Það er saga hins íslenska samningamódels að allir líti á sig sem sérstaka og að þeir eigi að hækka meira en aðrir. Þannig höfum við farið í gegnum hverja kjaralotuna á eftir annarri í gegnum tíðina og endað úti í skurði, hreinlega,“ segir Bjarni, en spurningar blaðamanns og svör Bjarna má lesa hér að neðan.

Hefur þú skilning á þeirri gagnrýni að laun þín hafi hækkað um tugi prósenta en hækkanir á launum ljósmæðra muni hins vegar ógna stöðugleika?

„Ég vísa í þá skýrslu sem ríkisstjórnin hafði frumkvæði að að gefa út, fyrr á þessu ári, þar sem fram kemur að laun þeirra sem heyra undir kjararáð hafa í lok þessa árs tekið breytingum sem sambærilegum hætti og aðrir launahópar hafa þróast.

Þetta er það sem gögn og staðreyndir sýna. Í framhaldi af þessari skýrslu hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir breytingum á launaákvörðunum kjörinna fulltrúa og ég tel að við höfum brugðist rétt við í einu og öllu hvað þau mál snertir.“

Telur þú að ljósmæður hafi afvegaleitt umræðuna í þessari kjaradeilu, haldið fram ósannindum jafnvel?

„Ég held að það hjálpi þessari kjaradeilu ekkert að fara út í slíkt, en það er einfaldlega rangt sem fram hefur komið að samninganefnd ríkisins hafi ekki umboð. Það er rangt. Ég á erfitt með að skilja þegar menn beina orðum sínum að mér og að ég hafi sýnt einhverja sérstaka óbilgirni. Ég hef eingöngu talað um staðreyndir og nú segja ljósmæður í þessari kjaradeilu að þær telji sig eiga inni leiðréttingu.

Við höfum í dag birt gögn um launaþróun ljósmæðra sem sýna að ljósmæður hafa þróast með sambærilegum hætti og aðrir BHM-hópar, fyrir utan það að ljósmæður fengu sérstaka hækkun á sínum tíma. Þannig að ég held að það sé langbest að umræða um þessi efni fari fram á grundvelli staðreynda og við höfum lagt okkar af mörkum til þess að undirbyggja slíka umræðu. Annað er eitthvað sem maður getur lítið tjáð sig um.“

Hvað telur þú ásættanlegt að laun ljósmæðra hækki mikið? Og af hverju?

„Þessari spurningu er ekki hægt að svara nema bara með almennum hætti. Samninganefnd ríkisins hefur umboð til þess að ljúka viðræðum við ljósmæður um kjarabætur sem eru sambærilegar og aðrir hafi verið að fá, nema það komi einhver sérstök réttlæting, einhverjar sérstakar aðstæður sem taka verði tillit til. Það er síðan endalaust deilumál sem aldrei verður botnað, hvað er sanngjarnt að hver og einn fái.

Það er saga hins íslenska samningamódels að allir líti á sig sem sérstaka og að þeir eigi að hækka meira en aðrir. Þannig höfum við farið í gegnum hverja kjaralotuna á eftir annarri í gegnum tíðina og endað úti í skurði, hreinlega.

Gögnin sem við lögðum fram í dag sýna að það hafa verið verulega miklar kjarabætur á undanförnum árum og ég lít þannig á að kjaraviðræður í dag snúist um að verja þann árangur umfram allt annað og að tryggja að við séum í samfloti öll.“

Mun ríkið koma að þessari deilu með einhverjum hætti umfram þá vinnu sem samninganefndin er að vinna?

„Ríkisstjórnin beitti sér á lokametrunum í þessari síðustu kjaralotu við ljósmæður, þegar við sömdum fyrir ekki löngu síðan. Þá þurfti að koma til ákveðinna aðgerða sem fjármálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið áttu samstarf um, en því miður studdi samninganefnd ljósmæðra, sú sem samdi við ríkið, hún studdi ekki sjálf samninginn. Þannig að hann féll auðvitað eins og við mátti búast.

Það er staðan sem við horfum á í dag. Eins og sakir standa verður þessi samningalota bara að halda áfram hjá samninganefndunum en ég hef áhyggjur af því að ríkissáttasemjari virðist telja svo langt á milli aðila að það sé ekki tilefni til þess að koma með neinar sáttatillögur.

Það er áhyggjuefni og það er sömuleiðis áhyggjuefni að hver heilbrigðisstéttin á eftir annarri grípur til mjög afgerandi aðgerða til þess að knýja á um launahækkanir, eins og við höfum séð. Við höfum séð á undanförnum árum lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra, núna ljósmæður, grípa til aðgerða.

Við höfum séð verkföll, við höfum séð hópuppsagnir og nú eru uppsagnir og yfirvinnubann yfirstandandi. Þetta er einfaldlega staðan sem við erum í á opinbera vinnumarkaðnum enn þann dag í dag og það er mikið áhyggjuefni, eitt og sér.“

Hefur þú áhyggjur af öryggi þeirra kvenna sem eru að fara að fæða börn á næstu vikum?

„Mér þykir slæmt að vita til þess að þetta ástand er að valda mörgum kvíða og áhyggjum. Hins vegar er heilbrigðiskerfið með neyðaráætlun sem á að tryggja að fæðingar geti farið fram við eðlilegar aðstæður en því miður erum við komin á þann stað að þurfa að virkja neyðaráætlun. Það er afleiðing af því að ljósmæður hafa bæði sagt upp og ætla um miðjan mánuðinn að beita yfirvinnubanni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert