Samþykktu lækkun hámarkshraða í miðborg

Frá gatnamótum Geirsgötu og Sæbrautar.
Frá gatnamótum Geirsgötu og Sæbrautar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Lögð var fram tillaga fyrir samgöngu- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar um lækkun hámarkshraða í nokkrum götum í miðborg Reykjavíkur. Tillagan var samþykkt með fyrirvara um samþykki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Tillagan fjallar um að hámarkshraði verði lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. á nánar tilteknum köflum Kalkofnsvegar, Geirsgötu, Hverfisgötu og Lækjargötu.

Við fyrirtöku málsins í borgarráði bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir, athugasemd þess efnis að rétt hefði verið að leggja Geirsgötu í stokk samhliða jarðvegsvinnu vegna framkvæmda milli Lækjartorgs og Hörpu.

„Þannig hefði mátt tengja Hörpu betur við miðbæinn í stað þess að kljúfa svæðið sundur með umferðargötu. Skapast hefði mannvænt umhverfi með möguleikum á lifandi torgum og bættum miðborgarbrag. Eins hefði stokkurinn getað leyst framtíðarsamgöngur fyrir byggð í Örfirisey og önnur svæði Vesturbæjar,“ að því er fram kemur í bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert