Stór grjótskriða féll í Hítará

Skriðan kom úr úr Fagraskógarfjalli við Hítardalsvelli
Skriðan kom úr úr Fagraskógarfjalli við Hítardalsvelli Ljósmynd/Erla Dögg Ármannsdóttir

Stór grjótskriða féll í morgun úr Fagraskógarfjalli við Hítardalsvelli við Hítará á Mýrum. Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal greinir frá þessu á facebooksíðu sinni. Í umfjöllun Skessuhorns segir að skriðan hafi stíflað ána. Lón hefur myndast einn kílómetra inn með ánni.

Finnbogi segir að á að sjá sé illmögulegt eða ómögulegt að bregðast við til að koma á rennsli árinnar. „Ég er alveg miður mín út af þessu,“ segir hann í færslunni.

Gísli Friðjónsson, bóndi á Helgastöðum sem eru gegnt fjallinu, segir í samtali við mbl.is að skriðan sé afar breið í hlíðinni þar sem hún fer af stað en erfitt sé að segja til um fjölda metra. Skriðan nái alveg frá toppi og niður að fjallsrótum og að hún hafi runnið mörg hundruð metra frá fjallinu, meðal annars yfir Hítará og stíflað hana.

„Það er að myndast lón þarna fyrir ofan,“ segir hann og bætir við: „Það gerir ekkert annað en að stækka fyrr en vatnið fer upp fyrir skriðuna.“

Hann segir girðingar og gróður hafa skemmst í skriðunni. Þá geti hann ekki fullyrt hvort skepnur hafi verið þar undir, en þar gæti hafa verið lambfé. Þá sé auðvitað talsvert tjón vegna árinnar, en Hítará er ein af betri laxveiðiám landsins. Landið þar sem skriðan féll er í eigu næsta bæjar, Hítárdals. Dóttir þar á bænum vaknaði að sögn Gísla milli fimm og sex í nótt við miklar drunur.

Grjótskriðan féll úr Fagraskógarfjalli við Hítardalsvelli við Hítará á Mýrum.
Grjótskriðan féll úr Fagraskógarfjalli við Hítardalsvelli við Hítará á Mýrum. mbl.is/kort
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert