Sólböð og ísát í veðurblíðunni

Í sólbaði í Þórsmörk.
Í sólbaði í Þórsmörk. Ljósmynd/Freyja Ingadóttir

Víða er veðurblíða á landinu í dag en samkvæmt vef Veðurstofu Íslands er hæstu hitatölurnar að finna á Suðurlandi. Hitinn fór mest upp í 17,1 stig á Básum í Goðalandi. „Hér er alveg bongó,“  segir Freyja Ingadóttir, skálavörður í Básum, í samtali við mbl.is.

Hún segir að í skjóli og sólskini séu að minnsta kosti 20 stiga hiti. „Fólk er að sóla sig, í gönguferðum og krakkar eru að leika sér í læknum og svona.“

Gestir í Básum njóta veðurblíðunnar.
Gestir í Básum njóta veðurblíðunnar. Ljósmynd/Freyja Ingadóttir

Freyja segir þau hafa fengið fimm góða daga í Þórsmörk um mánaðamót maí og júní. „Í gær og í dag er búið að vera besta veðrið í langan tíma. Annars hefur ekki verið hellirigning hér í allt sumar eins og annars staðar, við höfum fengið eina og eina dembu en það er ekki búið að skola okkur út hérna.“

Á Vesturlandi er einnig sól og blíða, svo sem í Húsafelli en þar er 16,7 stiga hiti. Hitabreyting dags og nætur er þó talsverð, en í nótt mældust -0,8 stig.

Máni Sigurðsson, starfsmaður á tjaldsvæðinu í Húsafelli kveðst hafa farið út um klukkan 2 í nótt og það hafi verið ansi kalt. „Það er yfirleitt ekki svona kalt á næturnar. Þetta er frekar óvenjulegt.“

Gestir í Húsafelli njóta veðurblíðunnar í dag. „Fólk er bara í sólbaði og að háma í sig ís.“

Ljósmynd/Freyja Ingadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert