Rostungur í Álftafirði á Austurlandi

Stór tannlaus rostungur synti upp á land í Þvottárfjöru í Álftafirði á Austurlandi en fyrst sást til rostungsins á þriðjudag. Það var Guðmundur Már Karlsson, heimamaður á svæðinu, sem kom auga á rostunginn um miðjan dag á þriðjudag.

Erlingur Hauksson sjávarlíffræðingur segir að af myndum að dæma sé rostungurinn líklega ungur að árum. „Rostungurinn er tannlaus og því líklega yngri en þriggja ára,“ segir hann í samtali við mbl.is en hann gerir fastlega ráð fyrir að rostungurinn hafi komið frá Grænlandi.

„Tannlaus rostungur á erfitt með að afla sér fæðu sjálfur. Urtan hefur afkvæmið á spena í 18 mánuði og í eitt ár í viðbót veiðir hún skeljar og annað æti fyrir það. Þriggja ára rostungur hefur fengið það öflugar tennur að hann getur veitt sjálfur,“ segir Erlingur.

Í umfjöllun um komur rostunga hingað til lands sem birtist í Morgunblaðinu um síðustu aldamót segir að lítið sé vitað um komur þessarar merkilegu dýrategundar hingað til Íslands, en ýmislegt bendi til þess að það séu helst ung dýr sem leggjast í flakk suður á bóginn og fara þá einförum. Síðustu heimildir um rostung á Íslandi í fréttum mbl.is eru frá því í ágúst árið 2013, þá í Jökulsárlóni, rostungur sást sömuleiðis í Reyðarfirði 17. júní sama ár.

Erlingur kveðst hissa á því hvað rostungurinn var slakur þrátt fyrir að mannfólk hafi nálgast hann mjög og tekið af honum myndir og myndbönd. „Ég er hissa á að rostungurinn skuli leyfa þetta, að hann hafi ekki farið í hafið aftur. Það getur verið að hann sé þreyttur þar sem hann er ekki einu sinni með ógnandi tilburði gagnvart ljósmyndaranum,“ segir Erlingur.

Andrés Skúlason frá Djúpavogi, sem tók myndskeiðið sem fylgir með fréttinni og myndirnar, segir að hann hafi komist mjög nálægt rostungnum en hann hafi baulað á sig þegar hann var kominn svona faðmlengd frá honum. 

Attachment: "Rostungur í Álftafirði" nr. 10804

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert