Beit og sparkaði í lögregluþjóna

Maðurinn veittist í tvö skipti að lögreglu þegar reynt var …
Maðurinn veittist í tvö skipti að lögreglu þegar reynt var að handtaka hann á síðasta ári. mbl.is/Arnþór Birkisson

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni, en hann er meðal annars ákærður fyrir að hafa bitið lögreglumann og í annað skiptið sparkað í þrjá lögreglumenn sem reyndu að handtaka manninn.

Í fyrri hluta ákærunnar er tiltekið að maðurinn hafi í júní á síðasta ári ekið um Kópavog og að Mjóddinni undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Stöðvaði lögreglan för mannsins og beit hann þá lögreglumann í handlegg með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka.

Þá var maðurinn einnig stöðvaður í október á síðasta ári eftir að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna í grennd við Mjóddina, meðal annars yfir umferðareyju, gegn rauðu ljósi og á röngum vegarhelmingi. Þá keyrði maðurinn á Reykjanesbraut að Álftanesvegi og að Garðahrauni þar sem lögreglan stöðvaði hann með því að aka utan í bifreið hans.

Þegar lögreglan reyndi að handataka manninn sparkaði hann í þrjá lögregluþjóna.

Er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar, greiðslu sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert