Mikill ryðsveppur á laufi í ár

„Í ár virðist þetta vera víða og plöntur illa farnar margar hverjar,“ segir Steinn Kárason garðyrkjumeistari og á við ryðsvepp sem herjar í meiri mæli á trjágróður í ár en alla jafna. Steinn segir að líklega sé slæmu sumri um að kenna og að ef maðkur herji á sama tíma á plönturnar geti þær skaðast varanlega.

Í trjásafninu sem Kópavogsbær hefur ræktað upp í botni Fossvogsdals er mikið af víðiplöntum sem eru illa leiknar en jafnframt hefur sveppurinn lagst á birki og reyni. Sérstaklega er ástandið slæmt á höfuðborgarsvæðinu enda hefur sumarið verið blautt og sólarstundir fáar.

Steinn segir að góð umhirða sé besta ráðið í baráttunni gegn ryðsveppnum sem tók að breiðast út hér á landi upp úr aldamótum. Gott sé að bera lífrænan áburð á trén en einnig að mikilvægt sé að safna saman laufum og farga þar sem ryðsveppur hefur náð sér á strik. Hætta sé á að óværan nái sér á strik að ári sé það ekki gert. 

mbl.is