Auðvelt að hafa snúningspunktinn rangan

Arnar Péturson á enn metið yfir besta tíma sem Íslend­ing­ur …
Arnar Péturson á enn metið yfir besta tíma sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í maraþoni á ís­lenskri grundu. Ljósmynd/Aðsend

„Sem betur fer á ég ennþá besta tímann sem Íslendingur hefur hlaupið á íslenskri grundu,“ segir hlauparinn Arnar Pétursson, sem kom fyrstur Íslendinga í mark í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst. Greint var frá því í dag að vegna mistaka væru tím­ar þeirra hlaup­ara sem kepptu í heilu og hálfu maraþoni í Reykja­vík­ur­m­araþon­inu í síðasta mánuði ógild­ir. Úrslitin í grein­un­um munu þó standa.

Færa þurfti grind­ur við snún­ingspunkt á Sæ­braut stuttu fyr­ir hlaup vegna um­ferðar og láðist að færa þær til baka. Af­leiðing­in varð sú að hlaupaleiðin var 213 metr­um of stutt og tímarnir því ógildir.

„Fyrir hlaupið var markmiðið bara að vinna,“ segir Arnar sem tók fréttunum af ógildingunni af mikilli ró og neitar að þetta hafi verið mikil vonbrigði. Arnar hljóp vegalengdina í ágúst á 2:26:43, en gamla metið hans var 2:28:17 og stendur því enn sem besti tími sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í maraþoni á ís­lenskri grundu. „Fókusinn var aldrei á tímann, þannig að hann var bara bónus.“

Munurinn meiri í hálfmaraþoninu

„Maður finnur til með þeim sem voru að hlaupa á sínum besta tíma og fá hann ekki skráðan og eins með þeim sem eru t.d. að reyna að komast í Bostonmaraþonið af því að maður þarf að vera með ákveðinn tíma til að komast inn í það,“ segir Arnar. Hann kveðst hafa heyrt í Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) sem sé búið að senda tilkynningu til skipuleggjenda Bostonmaraþonsins og óska eftir undanþágu. „Það er bara vonandi að það verði tekið til greina.“

Ógildingin hefur hins vegar engin áhrif á hann sjálfan. „Ég fæ á Garmin-úrið mitt 42,4 km mælingu sem er það sama og ég fékk í Hamborgarmaraþoninu, en þeir sem hlupu hálft maraþon voru flestir með kannski 21 km eða jafnvel 20,9 km í mælingu á sínum hlaupaúrum,“ útskýrir Arnar og segir að það sé eins og munurinn hafi verið meiri í hálfa maraþoninu, þar sem full vegalengd er 21,1 km. „Þannig að ég veit ekki hvort þetta hafi leiðrést einhvers staðar seinna í brautinni með maraþonið.“

Of stuttu brautirnar alltaf með snúningspunkti

Spurður hvort hann muni eftir sambærilegum dæmum segir hann svo vera. „Öll þau dæmi sem ég man eftir hafa verið í hlaupum með snúningspunktum.“ Vísar Arnar þar til þess að hlauparar séu látnir snúa við á ákveðnum stað í brautinni og hlaupa sömu leið til baka. „Þegar það eru svona snúningspunktar í brautum er svo einfalt að setja hann á vitlausan stað. Í þessu hlaupi var snúningspunkturinn 100 metrum of framarlega og þá verða 100 metrarnir náttúrulega að 200 metrum.“

Segir Arnar erfiðara að gera mistök þegar brautin er hringur. „Þannig að það er kannski spurning um að endurskoða snúningspunktinn.“

Arnar hefur gagnrýnt að seinni hluti brautar í Reykjavíkurmaraþoninu geti verið „andlega erfiður“ þar sem það vanti upp hvatn­ing­una í Foss­vog­in­um og út í Naut­hóls­vík­. „Ég hef farið á fundi með bæði ÍBR og Íslandsbanka þar sem við höfum verið að ræða hvað má gera betur og þau eru bæði mjög opin fyrir því hvernig megi bæta umgjörðina. Það er gaman að vita til þess að það er metnaður og rétta viðhorfið hjá þeim,“ segir hann og kveðst vonast til að sjá miklar breytingar á næstu árum.

Sjálfur er hann á leið til Bandaríkjanna í þriggja mánaða æfingabúðir síðar í þessum mánuði, en þar fer hann í undirbúning við að reyna við ólympíulágmark í maraþoni í apríl á næsta ári. „Þannig að það er stíft æfingaprógramm fram undan,“ segir hann.

mbl.is