Andlát: Theodór Jóhannesson

Theodór Jóhannesson
Theodór Jóhannesson Ljósmynd/Aðsend

Theodór Jóhannesson, sem var elstur karla á Íslandi, lést 3. september síðastliðinn. Hann fæddist 18. september 1913 og vantaði því fimmtán daga upp á að ná 105 ára aldri.

Theodór fæddist á Bergstaðastræti 26a í Reykjavík, sonur Jóhannesar Jónssonar trésmiðs og Helgu Vigfúsdóttur. Hann átti níu systkini en þrjú þeirra náðu 90 ára aldri. Þegar Theodór var fimm ára missti hann móður sína úr spænsku veikinni og var þá sendur að Ormsstöðum í Dalasýslu og var þar til tólf ára aldurs.

Hann tók verslunarpróf frá Samvinnuskólanum, starfaði eftir það hjá versluninni Remedíu og síðan hjá bróður sínum í Kjötbúðinni Borg. Theodór vann síðan hjá Flugfélagi Íslands til 75 ára aldurs og átti í krafti þess kost á að ferðast meðal annars til Ameríku, Hong Kong og Rauða-Kína. Síðustu þrjú árin var hann á hjúkrunarheimilinu Mörk. Hann var við góða líkamlega heilsu fram undir það síðasta en minnið var orðið gloppótt.

Kona Theodórs var Ragna Jónsdóttir. Þau kynntust þegar hún var 17 ára og giftu sig þremur árum síðar. Ragna lést fyrir tveimur árum en þá höfðu þau Theódór verið í hjónabandi í rúm 73 ár. Þau eignuðust fjögur börn, en tvö þeirra eru látin.

Elstu íslensku karlarnir nú eru allir fæddir snemma árs 1915. Þeir eru Ib Árnason Riis, búsettur í Kaliforníu í Bandaríkjunum, Lárus Sigfússon, fv. ráðherrabílstjóri í Reykjavík, og Þorkell Zakaríasson, áður vörubílstjóri í Húnaþingi vestra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert