Skorar á Alþingi að gera betur

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs.
Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs. Ljósmynd/Stúdentaráð

„Ljóst er að fjármagn á hvern nemanda mun ekki aukast, ef miða má við frumvarpið, nema að fækkun nemenda á háskólastigi eigi sér stað.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands um fjárlög fyrir árið 2019.

Stúdentaráð bendir á að í stjórnarsáttamála ríkisstjórnar sé boðuð stórsókn í menntamálum þar sem fram komi fagrar staðhæfingar um að öflugt menntakerfi sé forsenda framfara. Stefnt er að því að fjármögnun háskólastigs nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og meðaltali Norðurlandi árið 2025.

Stúdentaráð bendir á að til að ná meðtali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um þrjá milljarða til háskólastigsins á þeim tíma. Til að ná meðaltali Norðurlanda þyrfti háskólastigið um tveggja milljarða aukningu árlega til 2025.

„Raunhækkun háskólastigs fyrir árið 2019 er um 705 milljónir og fjármálaáætlun 2019-2023 gerir ráð fyrri um 2,7 milljarða viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni. Það liggur því í augum uppi að ríkisstjórnin ætlar hvorki að standa við þau loforð að háskólar Íslands nái meðaltali OECD-ríkjanna né Norðurlandanna á tímabilinu.“

Enn fremur er bent á að á Norðurlöndunum eru heildartekjur háskóla á ársnema að meðtali 4,4 milljónir á ári en aðeins 2,6 milljónir á Íslandi. Stúdentaráð segir það gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að hafa samkeppnishæft menntakerfi. Til þess þurfi ríkisstjórnin að auka fjárfestingar í námi og menntun. Ljóst er að áðurnefnd markmið um að ná OECD-ríkjum og Norðurlöndum munu ekki nást.

„Því harmar Stúdentaráð nýútgefið fjárlagafrumvarp í núverandi mynd og skorar á Alþingi að gera betur og ná settum markmiðum í fjármögnun háskólastigsins.“        

mbl.is