Ábyrgðin er borgarinnar

Bragginn var endurbyggður fyrir alls 415 milljónir.
Bragginn var endurbyggður fyrir alls 415 milljónir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Arkibúllan hannaði endurbyggingu á Nauthólsvegi 100 í samræmi við óskir verkkaupa og eftirlit arkitektastofunnar fólst í því að fylgjast með því að iðnaðarmenn fylgdu teikningum og verkin væru sannanlega unnin. Verkið er unnið samkvæmt ákvörðun Reykjavíkurborgar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vefsíðu Arkibúllunar í tengslum við fréttaflutning af endurgerð braggans við Nauthólsveg 100. Endurgerðin hefur verið mjög um­deild, en kostnaður við fram­kvæmd­irn­ar fór langt fram úr áætl­un. Upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir að kostnaður­inn yrði 158 millj­ón­ir, en heild­ar­kostnaður varð 415 millj­ón­ir.

Grasstrá sem voru gróðursett í kringum braggann kostuðu 757 þúsund krónur en ástæða þess var að þau voru höfundarvarin. 

Arkibúllan bendir einnig á í sinni yfirlýsingu að Reykjavíkurborg hafi gert alla samninga við verktaka, beri ábyrgð á gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana á öllum stigum framkvæmda og hafi ákveðið að beita ekki útboðum í verkinu.

Fréttin hefur verið uppfærð og hér að neðan má lesa yfirlýsingu sem barst frá Arkibúllunni í heild sinni:

„Verkið á Nauthólsvegi 100 er unnið samkvæmt ákvörðun Reykjavíkurborgar. 

Arkibúllan hannaði enduruppbygginguna í samræmi við óskir verkkaupa.

Misskilnings hefur gætt í fjölmiðlaumræðu síðustu daga um eftirlit Arkíbúllunnar með vinnu á verkstað. Margrét Leifsdóttir arkitekt er starfsmaður Arkíbúllunnar en ekki einn af eigendum stofunnar. Hún hefur ekki farið neinar ferðir erlendis á vegum þessa verkefnis. Varðandi margumrædd kaup á stráum, þá kom Arkíbúllan ekki að hönnun landslags á svæðinu. Um kostnað við þann verkþátt eins og aðra verkþætti framkvæmdarinnar hafði Reykjavíkurborg lokaorðið. Eftirlit Arkibúllunar fólst í að fylgjast með því að iðnaðarmenn fylgdu teikningum og verkin væru sannarlega unnin.

Að lokum er sjálfsagt að árétta, að það var Reykjavíkurborg sem gerði alla samninga við verktaka, ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana á öllum stigum framkvæmda og ákvað að beita ekki útboðum í verkinu. Þess vegna vísum við fyrirspurnum fjölmiðla sem varða þessa þætti verkefnisins til Reykjavíkurborgar.“

mbl.is