12 ár stuttur tími fyrir svona breytingar

Svifryksmengun á götum í Reykjavík. Halldór segir stærsta verkefnið sem …
Svifryksmengun á götum í Reykjavík. Halldór segir stærsta verkefnið sem nú blasi við Íslendingum vera orkuskipti í samgöngum. mbl.is/RAX

Íslenska þjóðin í heild þarf að taka sig á í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, ekki bara stjórnvöld, segir Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs og fyrrverandi forstöðumaður loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld og þá bæði ríkisvald og sveitarfélög gegni engu að síður mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Niðurstöður nýrrar skýrslu lofts­lags­ráðs Sam­einuðu þjóðanna, IPCC, voru kynntar í vikubyrjun. Þar kemur fram að miðað við nú­ver­andi þróun stefni í 3° hlýn­un jarðar. Skýrsl­an sé lokaviðvör­un vís­inda­manna og eigi að tak­ast að halda hlýn­un jarðar und­ir 1,5° sé þörf á „hröðum, víðtæk­um og for­dæm­is­laus­um breyt­ing­um á öll­um hliðum þjóðfé­lags­ins.“ Slík­ar aðgerðir verði veru­lega kostnaðarsam­ar, en dýr­keypt­ara verði að gera ekki neitt.

Njótum framsýni fyrri kynslóða

Í skýrslunni er talað um að 2,5% af vergri framleiðslu heimsins þyrftu að fara í aðgerðir vegna loftslagsmála næstu 20 árin eigi markmiðið að nást og benti RÚV í umfjöllun sinni á mánudag á að þeir 1,36 milljarðar sem íslensk stjórnvöld ætla í málaflokkinn árlega næstu fimm árin sé fjarri 2,5% af vergri þjóðarframleiðslu. Upphæðin sé nær því að vera 0,05%.

„Þessi skýrsla er ekki að leggja til að allar þjóðir séu með sömu töluna þegar kemur að fjárfestingum á þessu sviði,“ segir Halldór. „Hér á Íslandi njótum við framsýni fyrri kynslóða og erum þannig þegar búin að ráðast í þær fjárfestingar sem nágrannaþjóðirnar eru núna að ganga í, vegna þess að við erum þegar búin að ná þeim árangri að öll raforkan er hrein. Það er því villandi að taka heimsmeðaltalið varðandi fjárfestingar og heimfæra það yfir á það sem Ísland þarf að gera.“

Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs og fyrrverandi forstöðumaður loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, …
Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs og fyrrverandi forstöðumaður loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, segir íslensku þjóðina í heild þurfa að taka sig á í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ljósmynd/Aðsend

Orkuskipti í samgöngum stærsta verkefnið

Stærsta verkefnið sem nú blasi við Íslendingum séu orkuskipti í samgöngum. „Þau eru mjög spennandi viðfangsefni og það er í þjóðarhag að fara í þessi þriðju orkuskipti, sem þau stundum eru kölluð. Okkar kynslóð nýtur þess í dag að þeir sem á undan komu höfðu dug til þess að nýta jarðvarmann.“  

Svipuð staða sé upp á teningnum núna. „Við þurfum, sem þjóð, að bjóða okkar fólki upp á að geta komist milli staða með almenningssamgöngum sem nýta hreina íslenska innlenda orku í stað þess að flytja inn jarðefnaeldsneyti frá öðrum þjóðum.“

Halldór nefnir að mörg verkefnanna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum hafi færst á hendur sveitarfélaga og nefnir almenningssamgöngur sem dæmi. „Það er allt í lagi að eiga einkabíl, en það óþægilegt að vera þræll bílsins og komast ekkert án hans.“ Þeir sem hafi búið þar sem almenningssamgöngur eru góðar þekki frelsið sem sé því samfara.“

Mikilvægt sé hins vegar að horfa frekar á málið út frá þeim kostum sem séu samfara breytingum á samgöngukerfinu, frekar en að ráðast á einkabílinn sem sérstakt vandamál. „Það er margt sem erfitt getur verið að gera á Íslandi án hans, en valkostirnir þurfa að vera fleiri,“ segir Halldór.

Í nýlegri aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda er kveðið á um að nýskráning bíla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti verði bönnuð eftir 2030. Spurður hvort þetta sé ekki of lítið og of seint, þar sem losun koltvíoxíðs á heimsvísu þarf að minnka um helming á næstu 12 árum, segir Halldór svo ekki vera. „Þessi ákvörðun er lokapunkturinn á þeim umskiptum sem verið er að vinna að. Þú byrjar ekki á að banna notkun bíla sem byggja á jarðefnaeldsneyti fyrr en eftir að búið er að byggja upp aðra valkosti og það er það sem verið er að gera. Ég geri ráð fyrir því að árið 2030 verði mjög lítill áhugi á að kaupa bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.“

Ekki komið nógu langt í að rafvæða ferðaþjónustuna

Sjálfur er hann líka þeirrar skoðunar að nýta eigi efnahagshvata til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum, frekar en að hækka eldsneytisverð. „Það er skynsamlegra að beina frekar athyglinni að því lækka innflutningsgjöld og aðra gjaldtöku á nýfjárfestingum í samgöngum. Bensín- og olíuverð á Íslandi er þegar mjög hátt og hefur ekki dugað til að draga úr áhuga fólks á að kaupa bíla sem eyða miklu,“ útskýrir Halldór. Þess vegna ættu stjórnvöld frekar að beina athyglinni að því að sveitarfélög t.d. geti fjárfest í rafmagnsstrætisvögnum. Eins megi vel skoða að liðka fyrir endurnýjun á hópferðabílum og gera þá umhverfisvænni.

Ísland er heldur ekki komið nógu langt í að rafvæða samgöngur sem t.d. lúta að ferðaþjónustunni. „Við notum enn þá dísilolíu til að koma fólki frá flugvellinum í Keflavík til Reykjavíkur, þrátt fyrir að til séu lausnir sem myndu henta mjög vel við slíkar aðstæður.“ Þannig sé auðvelt að koma hleðslustöðvum fyrir á báðum endastöðum og vel megi raforkuvæða slíkar samgöngur án tilkomu lestarteina. „Það myndi líka undirstrika ímynd Íslands og þeirrar grænu orku sem landið hefur upp á að bjóða.“

Halldór segir umbyltinguna þegar í gangi, en hún þurfi vissulega að ganga hraðar fyrir sig. „Í dag  er 6 mánaða afgreiðslufrestur á mörgum rafbílanna vegna þess að eftirspurnin er það mikil.“

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. Ísland er ekki komið nógu langt í …
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. Ísland er ekki komið nógu langt í að rafvæða samgöngur sem t.d. lúta að ferðaþjónustunni. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Mikil losun frá úrgangi og við plastframleiðslu

Annað stórt verkefni sem Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir heims, þurfa að takast á við er losun frá úrgangi. „Þess vegna skiptir líka töluverðu máli að við horfum á neysluna og drögum úr myndun úrgangs. Það er t.d. mikil losun samfara framleiðslu á plasti og fyrir vikið er plast ekki bara vandamál í hafinu, heldur er líka orkunotkun til plastframleiðslu á heimsvísu að aukast jafnt og þétt og það er mikið áhyggjuefni,“ segir Halldór. „Við getum því gert mikið með því bara hvernig við högum okkar innkaupum og hvernig við göngum frá því sem við höfum keypt.“

Hvað losun koltvíoxíðs frá stóriðju á Íslandi varðar segir Halldór flest þeirra vera í forystusveit.  „Sérstaklega álfyrirtækin og eldri kísiliðjan,“ bætir hann við. „Það hefur líka náðst mikill árangur við að draga úr losun samfara fiskveiðum  og sú tækni sem hefur verið notuð til að draga úr þeirri losun er nú flutt út til annarra þjóða.“ Þegar farið sé að leita lausna reynist þær oft verðmætar og nýtist einnig öðrum.

Lítill tími er til stefnu, en í skýrslunni kemur líkt og áður sagði fram að útblástur koltvíoxíðs þurfi árið 2030 að hafa lækkað um 45% frá því sem var 2010. Frá 2010 hefur losunin hins vegar aukist og því þarf í dag að helminga heimslosunina eigi markmiðið um að halda hlýnun jarðar við 1,5° markmiðið að takast.

Spurður hvort þetta sé gerlegt segir hann svo vera. Breytingar sem gera þarf séu hins vegar þess eðlis að þær skili ekki árangri samtímis. „Því er það svo að þó að við höfum 12 ár til stefnu, þá er það mjög stuttur tími þegar kemur að svona breytingum.“

Binding koltvíoxíðs með landgræðslu og skógrækt og að draga úr losun með endurheimt votlendis eru mikilvægur þættir í því að ná að helminga nettó losunina fyrir 2030 [þ.e. sú losun sem er að  að frádreginni þeirri bindingu sem þegar á sér stað]. „Það er gerlegt að ná þessu markmiði, en það er ekki auðvelt. Það er gerlegt ef að við grípum strax til stórfelldra aðgerða. Það er hins vegar ekki hægt að bíða lengur og þess vegna er svo mikilvægt að hægt sé að ná árangri hér og nú.“

Losun frá úrgangi er stórt verkefni sem Íslendingar, líkt og …
Losun frá úrgangi er stórt verkefni sem Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir heims, þurfa að takast á við. mbl.is/Árni Sæberg

Skilningur á vandanum meiri en verið hefur

Í farvatninu er að setja á stofn loftslagssjóð sem á að fjármagna nýsköpun í tengslum við loftslagsmál og segir Halldór það verkefni vera mjög brýnt. „Nýsköpun í tengslum við loftslagsmál er það sem er almennt að knýja áfram hagvöxt í heiminum,“ segir hann.

Hann kveðst líka vera bjartsýnn á að þrátt fyrir svarta skýrslu takist mannkyni að halda hlýnun jarðar undir 1,5°. „Það er meiri samstaða á heimsvísu um þessi mál heldur en nokkurn tímann hefur verið,“ segir Halldór. Einstakar þjóðir haldi vissulega enn í vonina um að vandinn við loftslagsbreytingar  byggi á misskilningi en þær séu fáar. Samstaðan sé mun meiri og hún nái langt út fyrir ríkisstjórnir. Hún sé einnig til staðar í atvinnulífinu og hjá og sveitarfélögum.

„Ég er líka bjartsýnn vegna þess hve þessar breytingar sem þarf að ráðast í hafa marga aðra kosti í för með sér,“ bætir Halldór við. Þær séu ekki eingöngu réttlætanlegar út frá loftslagsvandanum, heldur einnig samfarandi plastvandanum og loftmengun. „Skilningurinn á því hversu alvarlegt málið er er líka alltaf að aukast, af því að við erum að sjá meiri aftakaveður og hvernig þau, þurrkar, flóð og fellibylir eru að gera flóttamannavandann sem fyrir var miklum mun erfiðari viðureignar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert