Hvað unnu þau sér til sakar?

Pia Oberoi er sérfræðingur hjá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna þegar kemur …
Pia Oberoi er sérfræðingur hjá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að mannréttindum innflytjenda og flóttafólks. Hún er með doktorspróf í lögfræði frá Oxford-háskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Börn á flótta eru lokuð inni í miðstöðvum flóttafólks án þess að hafa unnið sér neitt til sakar. Stundum eru þau innilokuð svo mánuðum skiptir og það er alls óvíst hvort þau komast nokkurn tíma í öruggt skjól. Hvernig útskýrir þú fyrir barni hvers vegna það er sett í fangelsi án þess að hafa brotið af sér? spyr Pia Oberoi, mannréttindalögfræðingur og sérfræðingur hjá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna. Hún var einn ræðumanna á friðarráðstefnu Alþjóðamálastofnunar og Höfða sem haldin var í gær.

Oberoi rifjaði í erindi sínu upp samtal sem hún átti við14 ára gamlan strák í Grikklandi. Honum var ómögulegt að skilja hvað hann hafði gert til þess að vera lokaður inni. Hann hafði flúið óbærilegar aðstæður í heimalandinu þar sem ekkert beið hans nema dauðinn. Eða ungir karlar eða unglingspiltar frá Afganistan sem hafast við á götum úti í norðurhluta Frakklands og eiga þann draum að komast yfir Ermarsundið, til Bretlands. 

Eliza Reid forsetafrú flutti erindi á friðarráðstefnunni og ræddi hún …
Eliza Reid forsetafrú flutti erindi á friðarráðstefnunni og ræddi hún um ferð sína í flóttamannabúðir í Jórdaníu fyrir ári á vegum UNWomen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mörg þessara ungmenna enda í skuggahagkerfinu og verða jafnvel fórnarlömb mansals þar sem þau eiga engra annarra úrkosta völ til þess að verða sér úti um mat og svefnstað. 

Í samtali við mbl.is bendir hún á að mörg þessara ungmenna hafi gengið í gegnum skelfilega hluti áður en þau komast til Evrópu svo dæmi séu tekin. Til að mynda þau sem eru að koma sjóleiðina frá Afríku, hafa kannski hafst við í töluverðan tíma í Líbýu, lent skipsskaða á Miðjarðarhafi og flest hafa þau misst einhverja nákomna, hvort sem það er áður en þau flýja eða á flóttanum. 

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og greiningarmála á skrifstofu utanríkisráðherra, …
María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og greiningarmála á skrifstofu utanríkisráðherra, stýrði umræðum á ráðstefnunni þar sem gestum var gefinn kostur á að spyrja Piu Oberoi og JJ Bola. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enda oft í skuggahagkerfinu

Í stað þess að veita þeim þann stuðning sem þau þurfa á að halda er þeim komið fyrir í móttökumiðstöðvum á meðan verið er að fara yfir mál þeirra. Þau sem eru að nálgast átján ára aldur fá skjól en þegar þau verða átján þá eiga þau á hættu að vera send til heimalandsins að nýju. Og hvað bíður þeirra þar? Því enda mörg þeirra í skuggahagkerfi Evrópu, sem sölumenn á stolnum varningi á götum stórborganna. 

Ungmenni eru ekki reiðubúið í aðstæður sem þessar. Ekki síst ungmenni sem er með skelfilega lífsreynslu að baki, segir Oberoi og segir ekki skipta máli hvoru megin við 18 ára afmælisdaginn þau eru.

Þau hafa orðið viðskila frá foreldrum eru jafnvel fórnarlömb misnotkunar og þau eiga rétt á einhverju betra en að vera lokuð inni fyrir það eitt að hafa komið til landsins án fullgildra skjala. 

JJ Bola er ljóðskáld og rithöfundur. Hann er fæddur í …
JJ Bola er ljóðskáld og rithöfundur. Hann er fæddur í Austur-Kongó en flúði til Bretlands ásamt fjölskyldu sinni er hann var sjö ára gamall. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir að staða flóttafólks sem ekki fellur undir skilgreiningu á flóttamannahugtaki Sameinuðu þjóðanna (refugee), það er ekki á flótta undan stríði eða stjórnmálaskoðana heldur örbrigð eða ofbeldi sem ekki fellur undir flóttamannaskilgreiningu (economic migrant) sé oft enn verri. Því efnahagslegir flóttamenn fá mjög sjaldan skjól og eru því líklegastir til þess að lenda í skuggakerfi ríkja sem þeir töldu jafnvel fyrirheitna landið. 

Pia Oberoi segir mikilvægt að hlusta á fólk sem er á flótta og virða drauma þeirra og hugmyndir. Því í raun sé svo miklu meira sem sameini fólk heldur en sundrar. Fólk á flótta er ekkert nýtt og það hafi sýnt sig að innflytjendur bæta oft samfélög sem þeir koma til. Koma með sína menningu með sér og auki fjölbreytileika þjóðfélaga.

Eins megi aldrei gleyma því að börn og ungmenni á flótta falla undir ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það sé alveg jafnalvarlegt brot að brjóta á þeim og börnum sem eru fædd í viðkomandi landi. Grundvallarmannréttindi eigi við um þau líkt og aðra þegna samfélagsins. Ungmenni verða oft fórnarlömb misnotkunar og ofbeldis í yfirfullum miðstöðvum flóttamanna líkt og dæmin sýna. 

Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra, Médecins Sans Frontières (MSF), krefjast þess að flóttamannabúðir sem áströlsk stjórnvöld reka á eyjunni Nauru í Kyrrahafi verði rýmdar strax enda sé andlegri líðan fólks hætta búin þar. Fjallað er um málið á vef BBC í dag.

MSF hefur starfað á Nauru undanfarna í 11 mánuði en var nýverið gert að yfirgefa Nauru. Þar höfðu samtökin veitt 78 manns læknisaðstoð en allir skjólstæðingar þeirra höfðu annaðhvort reynt að taka eigið líf eða skaðað sig. Yfirvöld á Nauru og Ástralíu hafa ekki svarað beiðni MSF. 

Flóttamannabúðirnar á Nauru voru settar upp árið 2013 og segja áströlsk yfirvöld að stefna þeirra, um að heimila fólki ekki að koma að landi í Ástralíu, hafi komið í veg fyrir dauðsföll og fælt smyglara frá. 

MSF hafði þann tíma sem samtökin störfuðu á Nauru boðið bæði flóttafólki og íbúum Nauru upp á ókeypis sálræna meðferð en á sunnudag var MSF fyrirskipað að yfirgefa eyjuna.

Yfir 900 flóttamenn, þar á meðal 100 börn, eru á Nauru samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaráði Ástralíu. Sjálfsvígstilraunir og sjálfsskaði eru nánast daglegt brauð, ekki síst meðal barna allt niður í níu ára. 

Dr Beth O'Connor geðlæknir er meðal þeirra sem hafa starfað á Nauru og hún segir að þar hafi hún annast börn sem glíma við alvarlega áfallastreituröskun. „Þegar ég heimsótti þessi börn þá voru þau rúmliggjandi á heimilum sínum. Þau voru hætt að borða og drekka þannig að þau voru í lífshættu. Mörg þeirra voru ófær um að komast sjálf á klósett,“ segir O'Connor í samtali við BBC.

mbl.is