Krefjast lokunar á Gvantanamó-búðum Ástralíu

AFP

Tugir mannúðarsamtaka, þar á meðal Amnesty International, hvetja leiðtoga Kyrrahafsríkjanna til þess að krefjast þess að búðum flóttafólks á eyjunni Nauru verði lokað. Áströlsk stjórnvöld bera ábyrgð á búðunum en starfsemi þeirra hefur verið harðlega gagnrýnd vegna slæms aðbúnaðar þar og brota á mannréttindum fólks.

Leiðtogar 18 Kyrrahafsríkja munu halda ársfund sinn á Nauru 2. til 6. september þar sem sendinefndirnar munu gista skammt frá flóttamannabúðunum sem ganga undir heitinu „Australia's Guantanamo“.

Þar eru hýstir flóttamenn sem hafa sótt um hæli í Ástralíu en um er að ræða flóttafólk sem hefur komið til Ástralíu með  bátum. Fólkið er flutt á nærliggjandi eyjar, það er Nauru og Papúa Nýju-Gíneu en áströlsk stjórnvöld hafa tekið hart á hælisleitendum og eiga þeir litla von á að fá hæli í Ástralíu.

Mannúðarsamtökin sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem þau hvetja ríkin 18 til þess að bregðast við og binda endi á þennan smánarblett svæðisins. Ekki sé lengur hægt að hunsa málið og nauðsynlegt sé að setja það í forgang, segir Roshika Deo hjá Amnesty International.

Ástandið sé mjög alvarlegt og verði að bregðast skjótt við. Leiðtogar ríkja á svæðinu verði að sýna að þeir standi ekki hjá á meðan ástralska ríkisstjórnin heldur áfram að leggja líf fólks að veði með framgöngu sinni.

Meðferðin á þeim sem dveljist í búðunum sé ómannúðleg og binda verði endi á þetta fyrirkomulag.

AFP

Fjölmargar frásagnir séu um ofbeldi gagnvart flóttafólki á Papúa Nýju-Gíneu og ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum og börnum á Nauru, segir í yfirlýsingunni. Yfir 200 flóttamenn eru nú á Nauru, samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaráði Ástralíu, þar af tugir barna.

Mannréttindalögfræðingar segja að börnin glími við sálræna kvilla á sama tíma og þau búa við aðstæður sem þau skilja ekki hvers vegna þau eru sett í. Ítrekað hefur verið tilkynnt um sjálfsskaða meðal barna sem þar eru. 

Á sama tíma bjarga flóttamennirnir lífsafkomu eyjaskeggja því án þeirra tekna sem eyjan fær frá áströlskum stjórnvöldum er fátt um fína drætti þar sem eina lífsbjörgin er eina náttúruauðlind eyjunnar, fosfat.

Yfirvöld á Nauru hafa sett mjög stífar reglur varðandi umfjöllun fjölmiðla um ársfundinn. Hafa þau meðal annars hótað að afturkalla vegabréfsáritanir blaðamanna ef þeir taka myndir af flóttamannabúðunum. Eins fær aðeins takmarkaður fjöldi fréttamanna aðgang að fundinum. 

Eyjan Nauru.
Eyjan Nauru. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert