Ofbeldið hefur lítil áhrif á dóma

Samkvæmt Sigríði reyna gerendur að tefja skilnaðarferli og forsjármál.
Samkvæmt Sigríði reyna gerendur að tefja skilnaðarferli og forsjármál. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ef annar aðilinn í sambandinu er beittur ofbeldi reynir hinn oft að draga lappirnar út í hið óendanlega í skilnaðarferli. Þetta sagði Sigríður Vilhjálmsdóttir lögmaður á ráðstefnunni „Gerum betur“. Yfirskrift erindis hennar var „Eru skilnaðar- og forsjármál nýr vettvangur fyrir ofbeldi maka?“

Sigríður sagði gerendur iðulega hóta þolendum öllu illu, slíti þeir sambandinu. Markmið þeirra sé að halda ofbeldissambandinu áfram. Þannig séu algengar hótanir um að þolandi fái aldrei að sjá börnin aftur og fleira í þeim dúr. Þolandinn trúi hótununum oft að hluta til þó að það viti að þær geti vart átt við rök að styðjast.

Þolendur sem eru með dvalarleyfi grundvallað við Íslending óttast skilnaðarferlið mikið. Þær óttast þá að verða sendar úr landi við sambandsslit, aftur í aðstæður sem þær voru ef til vill að flýja.

Meintur ofbeldismaður hótaði lögmanninum

Sigríður sagði að forsjármál geti tekið langan tíma þar sem smæstu atriði geti orðið að ágreiningsefni. Ekki þurfi mikið til að ágreiningur myndist þegar allt traust er horfið milli aðila.

Reynsla Sigríðar við vinnu forsjármála er sú að ofbeldi hafi lítil áhrif á niðurstöðuna. Staða þolendanna er bág þegar verið er að meta þá sem foreldra. Í ferli forsjármáls skila sérfræðingar álitsgerð en að mati Sigríðar virðist þeim of oft mistakast að greina ofbeldismenn. Hún nefndi dæmi að meintur ofbeldismaður hefði hótað henni, sem lögmanni, en í álitsgerðinni kom ekkert fram sem benti til annars en að hann væri hæft foreldri.

Sigríður tók sem dæmi nokkra dóma í forsjármálum þar sem ofbeldið virtist ekkert hafa að segja. Í einu tilfelli hafi kona flúið ofbeldismann í Kvennaathvarf en hann varð eftir á heimilinu. Hann byggði á því að hann ætti að fá forsjá dóttur þeirra, vegna þess að það myndi ekki raska lífi hennar. Barnið gæti þannig áfram búið á heimilinu sem það hefði búið á frá fæðingu.

Ekkert var fjallað um meint ofbeldi í matsgerð eða niðurstöðu dóms í því máli.

Viðurkenndi eitt skipti „stimpingar“

Í öðru máli sem Sigríður fjallaði um bar konan einnig við að maðurinn hefði beitt hana ofbeldi. Maðurinn byggði mál sitt á því að konan hefði meðal annars tálmað honum umgengni og sagði að sambandið hefði einkennst af andlegu ofbeldi af hennar hálfu.

Hann vildi ljúka málinu með sátt en það vildi konan alls ekki vegna ofbeldis. Maðurinn fékkst til að viðurkenna „stimpingar“ í eitt skipti. Í matsgerð kom fram að engin gögn væru um annað ofbeldi mannsins en áðurnefndar stimpingar. Fólkinu var dæmd sameiginleg forsjá.

Ofbeldishegðun sögð tengjast áfengisneyslu

Síðasta málið, frá því í fyrra, fannst Sigríði skýrasta dæmið um það að lítið mark sé tekið á ofbeldi í dómum í forsjármálum. Maðurinn hafði ítrekað beitt konuna ofbeldi og hótað henni lífláti. Hann hafði verið sakfelldur fyrir brot gegn konunni.

Hann hafði verið úrskurðaður í nálgunarbann og verið vísað af heimilinu. Í matsskýrslu var vísað til þess að áðurnefnd tilfelli hafi verið einstök og í tengslum við áfengisneyslu mannsins. Þar kom enn fremur fram að konu og börnum stafaði engin hætta af manninum að því sögðu að hann héldi sér edrú.

Manninum var úrskurðuð umgengni aðra hvora helgi, frá fimmtudegi til mánudags, gegn því skilyrði að hann héldi sig frá áfengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert