Létu bóka beiðni um tilhlýðilega virðingu

Borgarráðsfulltrúar ræddu um álit borgarlögmanns til innkauparáðs á fundi í …
Borgarráðsfulltrúar ræddu um álit borgarlögmanns til innkauparáðs á fundi í dag. mbl.is/Hari

Umsögn borgarlögmanns um fylgni við innkaupareglur í samningum við framkvæmdir við Nauthólsveg 100 var lögð fram á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær. Fulltrúar minnihlutans mótmæltu áliti borgarlögmanns, einn sagði embættið „verja braggaskandalinn“ og fulltrúar meirihlutans létu að lokum bóka beiðni um að kjörnir fulltrúar sýndu embætti borgarlögmanns „tilhlýðilega virðingu“.

Í álitinu frá embætti borgarlögmanns kom fram að brotið hefði verið gegn innkaupareglum borgarinnar við endurgerð húsanna á Nauthólsvegi 100. Lög hefðu þó ekki verið brotin, þar sem verkefnið hefði ekki verið útboðsskylt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði bókuðu í sameiningu að ekkert benti til annars en að framkvæmdirnar hefðu verið útboðsskyldar samkvæmt innkaupareglum borgarinnar. Vísuðu þau meðal annars til þess að engir skriflegir samningar hafi legið til grundvallar framkvæmdinni.

[Leiðrétting: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar sagði að bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins um útboðsskyldu verksins samkvæmt innkaupareglum borgarinnar hefði verið „þvert á álit borgarlögmanns.“ Það er rangt.

Ábending barst frá embætti borgarlögmanns um að sú niðurstaða, að verkið hefði verið útboðsskylt samkvæmt innkaupareglum borgarinnar, væri í fullu samræmi við framlagt álit. Það er rétt. Niðurstaða borgarlögmanns var hins vegar sú að verkið hefði ekki verið útboðsskylt samkvæmt þágildandi lögum um opinber innkaup.]

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, lét bóka að í álitinu væru „staðreyndir algjörlega hundsaðar“ og að álitið hefði byggst á því að Reykjavíkurborg hefði ekki brotið lög á þeim grunni að ekki hefði þurft að bjóða verkið út á EES-svæðinu, þar sem fjárhæð verkefnisins hefði verið undir 834.842.176 kr.

Frá fundi borgarráðs Reykjavíkur fyrr í haust.
Frá fundi borgarráðs Reykjavíkur fyrr í haust. mbl.is/​Hari

Sakar borgarlögmann um að „verja braggaskandalinn“

„Það er með ólíkindum að borgarlögmaður, sem skal vera hlutlaus í störfum sínum, skuli velja þessa leið til að verja braggaskandalinn. Það er ævintýralegt að embættið skuli svo mikið sem viðra það að bjóða hefði átt braggann út á EES-svæðinu en ekki samkvæmt lögum um opinber innkaup,“ bókaði Vigdís og í kjölfarið létu borgarráðsfulltrúar meirihlutans frá sér nokkuð hvassyrta bókun.

„Það er langt því frá að staðreyndir séu hundsaðar í umræddu áliti borgarlögmanns. Þvert á móti eru staðreyndum gerð skýr skil og tekið á þeim þáttum sem óskað var eftir áliti á. Skýrt kemur fram í álitinu að verkefnið hafi ekki verið útboðsskylt skv. 2. mgr. 19. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 en þar kemur fram að lögin gildi ekki um innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Efnislega sama regla er enn í gildi til 31. maí 2019, sbr. 4. mgr. 123. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016.

Hjá borgarlögmannsembættinu starfar einn færasti sérfræðingur landsins í opinberum innkaupum og eru kjörnir fulltrúar beðnir um að sýna embættinu tilhlýðilega virðingu. Skrifstofunni er þakkað þetta afar vandaða álit,“ segja borgarráðsfulltrúar meirihlutans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert