Fimmtungur mætir á hjóli

Á annað hundrað hjól komast fyrir í hjólageymslu fyrirtækisins, en …
Á annað hundrað hjól komast fyrir í hjólageymslu fyrirtækisins, en þar er meðal annars upphitað horn þar sem jakkar, skór og annar hjólafatnaður getur þornað. Ljósmynd/Aðsend

Yfir sumartímann mætir um fimmtungur starfsmanna Advania til vinnu á hjóli, eða um 125 manns á hverjum degi. Þá mættu um 55% til vinnu með öðrum hætti en á einkabíl og yfir vetrartímann er um helmingur sem mætir á einkabíl. Um helmingur starfsfólks hefur í dag undirritað samgöngusamning og fær styrk á móti því að mæta oftast með öðrum hætti en einkabíl til vinnu. Hefur þeim sem nýta sér samninginn fjölgað um rúmlega 40% frá síðasta ári.

Stór ástæða þess að svona fjölmennur hópur starfsfólksins mætir á hjóli er meðal annars að sérstök aðstaða var tekin frá fyrir hjól þegar húsið var endurbyggt og Advania flutti þar inn á sínum tíma og hefur nú verið endurgerð. Einn forsvarsmanna hjólaklúbbs fyrirtækisins segir að stefna fyrirtækisins í samgöngumálum hafi ýtt við honum og í dag hjólar hann alla daga til vinnu.

Íris Sigtryggsdóttir fræðslustjóri hjá fyrirtækinu segir í samtali við mbl.is að það hafi lengi verið afstaða innan fyrirtækisins að ýta undir hjólreiðar og aðrar samgöngur en einkabílinn. Þar spili einnig inn staðsetning fyrirtækisins sem sé nokkuð miðsvæðis og því takmarkað magn bílastæða. Hjá fyrirtækinu vinna í dag rúmlega 600 manns og þar af rúmlega 500 í Guðrúnartúni. Fyrir utan húsnæðið eru bílastæði fyrir um 125 einkabíla auk þess sem viðskiptavinir þurfa nokkur þeirra.

Bílastæðið fyrir utan höfuðstöðvar Advania tekur um 125 bíla. Það …
Bílastæðið fyrir utan höfuðstöðvar Advania tekur um 125 bíla. Það er sami fjöldi og hjólageymsla fyrirtækisins tekur. Ljósmynd/Aðsend

Íris segir að fyrirtækið hafi bæði viljað hvetja fólk til hreyfingar og finna lausn á bílastæðamálum og því hafi samgöngustyrkur lengi verið í boði fyrir þá sem komi reglulega til vinnu með öðrum hætti en á einkabíl. Þá sé mikið lagt í hjólaaðstöðu í kjallara hússins þar sem stæði sé fyrir vel á annað hundrað hjól, þrifaaðstaða og þurrkaðstaða fyrir fatnað.

„Þetta er fjárfesting sem margborgar sig,“ segir Íris og segir fyrirtækið stefna að því að gera nánari greiningu á því hverju samgöngustefnan skili, bæði fjárhagslega, en ekki síður fyrir ánægju starfsfólks.

Bjarki Traustason, einn af aðstandendum hjólaklúbbs Advania sem meðal annars sér um aðstöðuna, segir að hjólamenningin hjá þeim fyrirtækjum sem síðar urðu að Advania hafi hjálpað mikið við hvernig til tókst hjá Advania. Til viðbótar hafi afstaða stjórnenda skipt máli og þá skipti góð aðstaða öllu máli. „Þegar húsið var byggt var hugsað fyrir þessu strax í upphafi,“ segir hann og bætir við að stundum geti verið hræðilegt að fá stæði í kringum húsnæði fyrirtækisins.

Hægt er að þurrka fatnað í geymslunni, en á einum …
Hægt er að þurrka fatnað í geymslunni, en á einum stað er heitur blástur. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir um fimm árum kom Bjarki alltaf á einkabíl en segir að þegar komið hafi að því að endurnýja bíl númer tvö hjá fjölskyldunni á þeim tíma hafi hann farið að skoða aðra möguleika eins og hjólreiðar. Hann segir samgöngustyrkinn hafa verið ákveðið spark sem ýtti honum út í að kaupa hjól. „Svo ferðast maður um 25 km á dag og þá er nauðsynlegt að hafa almennilega aðstöðu til að þrífa sig þegar maður kemur löðursveittur til vinnu,“ segir hann. „Þegar maður er kominn í þyngd sem er nálægt póstnúmerinu sem maður vinnur í er maður líka til í að skoða eitthvað annað en að lappa upp á bílskrjóðinn,“ segir Bjarki hlæjandi.

Menningin innanhúss hefur einnig haft sitt að segja og Bjarki nefnir að lið frá fyrirtækinu hafi þrisvar tekið þátt í Wow cyclothon og sömuleiðis ýmsum hreyfingarátökum eins og Hjólaðu í vinnuna. Allt ýti þetta undir að fólk velji aðra samgöngukosti en einkabílinn, en í dag eru 292 starfsmenn fyrirtækisins með slíkan samning og fjölgaði þeim um tæplega 90 frá síðasta ári.

Í boði er að þrífa hjólin í geymslunni, en slíkt …
Í boði er að þrífa hjólin í geymslunni, en slíkt getur verið gott þegar veðrið er slæmt og mikill sandur eða óhreinindi Ljósmynd/Aðsend
mbl.is